Í morgun voru kýrnar á Mánárbakka á Tjörnesi settar út í fyrsta sinn þetta vorið. Þær slettu eðlilega vel úr klaufunum þegar þær hlupu út á túnið í blíðskaparveðri. Á Mánárbakka eru 25 kýr og að sögn Bjarna S Aðalgeirssonar bónda hafa kýrnar hans venjulega farið út í fyrstu viku júní. Sunna Mjöll Bjarnadóttir tók meðfylgjandi mynd í morgun.

641.is er ekki kunnugt um að búið sé að setja út kýr á öðrum bæjum í sýslunni, enda tæplega komin hagi fyrir kýr nema þá á Tjörnesi.
Veturinn var óvenju snjóléttur á Tjörnesi og vorið og sumarið því fyrr á ferðinni þar en í innsveitum sýslunnar. Að sögn Bjarna er nánast ekkert kal í túnum á Mánárbakka og hann er því bjartsýnn á sumarið.