Sláturtíð skiptir samfélagið miklu máli

0
105

Sláturtíð er fyrst og fremst  tímabil þar sem bændur uppskera eftir mikla vinnu og skiptir þá að sjálfsögðu öllu máli hvernig til tekst. Það er auðvitað alltaf þannig að mismunur er á milli svæða og manna og þar kemur margt inn í, menn t.d. mislangt komnir í ræktun og svo eru það að sjálfsögðu náttúruöflin sem skipta miklu máli.

Sigmundur Hreiðarsson

Náttúröflin hafa svo sannarlega sýnt klærnar síðustu tvö ár og gert mörgum bóndanum lífið erfitt. Sauðburður vorið 2011 var bændum á Norðurlandi afar erfiður vegna bleytu og kulda og kom sannarlega niður á afkomu þeirra, og öll vitum við hvað gekk hér á nú í byrjun september, þegar aftakaveður gekk yfir. Eina orðið yfir það er hamfarir. Ljóst er að stór skörð hafa verið höggvin í bústofn margra og tjónið bæði fjárhagslegt og tillfinningalegt. Eftir tvö svona ár tekur það langan tíma fyrir þá að ná stofninum í sama horf og áður.

Margir hafa lagt mikið á sig til að aðstoða bændur eftir þetta áhlaup, hjálparsveitir, félagasamtök, fyrirtæki, ráðunautar, sýslumaður, lögregla, einstaklingar og örugglega fleiri og sýnir þetta styrk samfélagsins þegar á reynir. Nú er það stjórnvalda að sýna styrk sinn og tryggja að skaðinn, fyrst og fremst skaði bænda, verði bættur, því þeir og íslenska sauðkindin eiga það svo sannarlega skilið. Einnig verða stjórnvöld að tryggja að kostnaður annarra, til dæmis hjálparsveita, verði lágmarkaður.

Sláturtíð er líka vertíð fyrir marga, t.d starfsfólk sem margir hverjir leggja mikið á sig og vinna langa daga til að allt geti gengið og á þetta við bæði allt starfsfólk  sem viðkemur sláturtíð og einnig vinnslu. Án alls þessa góða starfsfólks væri þetta ekki hægt, en hér hjá Norðlenska á Húsavík starfa nú um 130 manns.

Sláturtíð hefur líka margvísleg önnur áhrif, t.d eru það verktakar sem sjá um sauðfjárflutningana, akstur á gærum, dreifingu á áburði og gámaþjónustu, en akstur með gáma er mikill. Einnig erum við með samning við hótelið um gistingu, nýtum okkur að sjálfsögðu Húsavíkurflugið eins og kostur er og hópferðabíla, ásamt því að reka mötuneyti fyrir 130 manns sem kallar á mikil á innkaup og svo skilur þetta fólk auðvitað töluvert eftir í verslun og þjónustu. Sláturtíðin hefur því á margvíslegan hátt mikla þýðingu fyrir okkar litla samfélag.

Sláturtíð hjá Norðlenska skiptir að sjálfsögðu bændur líka miklu máli hvað afkomu fyrirtækisins varðar í ljósi þess að þeir eru eigendur fyrirtæksins og Norðlenska er reyndar eini sláturleyfishafinn sem eingöngu er í eigu bænda. Af því erum við stolt.


Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.