Sláturtíð hafin – fé kemur óvenju vænt af fjalli

0
125

Sláturtíð hófst af fullum krafti í gær hjá Norðlenska á Húsavík. Fé kemur óvenju vænt af fjalli að þessu sinni, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar, vinnslustjóra. Bóndi sem vigtaði féð heima áður en hann fór með það að í sláturhús hélt jafnvel að vigtin væri biluð því hann hafði aldrei séð aðrar eins tölur í byrjun sláturtíðar! Meðalvigt lamba í gær var 17,5 kg en rúmlega 19 kg hjá einum bóndanum.

Úr sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Mynd: Norðlenska.is

 

 

„Við höfum ekki séð svona vænt fé í byrjun sláturtíðar. Matsmenn sem hafa verið lengi hjá mér muna að minnsta kosti ekki eftir svona fé á þessum tíma,“ segir Sigmundur.

Forslátrun var hjá Norðlenska á Húsavík 30. ágúst og var þá rúmlega 800 lömbum slátrað. Í gær var húsið orðið fullmannað og þá var rúmlega 1100 lömbum slátrað.

„Mönnun hefur gengið vel. Við erum með einvala lið hér, sama fólkið ár eftir ár, meðal annars nokkra útlendinga sem hafa komið oft. Það er alltaf mjög gaman þegar sama fólkið hittist hér á þessum árstíma,“ segir Sigmundur.

Alls bætast hátt í 90 í hóp starfsmanna Norðlenska á Húsavík meðan á sláturtíð stendur. „Það mæðir mikið á fasta fólkinu okkar en við erum með sterkan kjarna sem tekst á við þetta,“ segir Sigmundur og honum líst vel á framhaldið. Ef veður verði gott hafi hann engar áhyggjur.    Norðlenska.is