Slátrun riðlast vegna óveðursins

0
176

Slátrun hefur riðlast í kjölfar óveðursins á Norðurlandi en víða er ekki hægt að komast með fé til slátrunar vegna ófærðar. Bændur óttast verðfall á kjöti þar sem lömb sem grafist hafa í fönn eru marin og hrakin.

Úr sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Mynd: Norðlenska.is

Sláturhúsin á Húsavík, Sauðárkróki og Blönduósi hafa öll þurft að hliðra til í sláturáætlun sinni og hjá Fjallalambi á Kópaskeri er slátrun ekki hafin vegna rafmagnsleysis. Að sögn Þórarins Péturssonar, formanns Landssamtaka sauðfjárbænda, hafa bændur sýnt hver öðrum skilning og víxlað sláturdögum vegna ástandsins. Margir hafi áhyggjur af því að það fé sem grafist hefur í fönn falli í verði þar sem það er marið og hrakið.

„Við þurfum að skoða hvort það sé ekki einhvernvegin hægt að bæta það tjón sem menn verða fyrir þó menn séu að slátra lömbum sem eru aðeins marin og annað en þau mál eru alveg í skoðun og of snemmt að segja hvað verður,“ segir Þórarinn.

Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri hjá Norðlenska á Húsavík, segir að unnið verði lengri daga og á laugardag til þess að vinna upp seinkanir sem orðið hafa á sláturáætlun vegna ófærðar. „Við höfum rætt við dýralækna og þeir telja æskilegt að lömb sem eru grafin úr fönn komi ekki til slátrunar fyrr en hálfum mánuði síðar. Þannig að við eigum eftir að sjá hvernig þetta spilast. Við munum sannarlega gera allt sem við getum til þess að minnka skaðann, hann er örugglega nægur fyrir”.

ruv.is