Skrifað undir verndar- og stjórnunaráætlun Dimmuborga

0
185

Skrifað hefur verið undir verndar- og stjórnunaráætlun náttúruvættisins Dimmuborga í Mývatnssveit. Það voru Daði Lange Friðriksson sem staðfesti áætlunina fyrir hönd Landgræðslu Ríkisins og Kristín Linda Árnadóttir og Davíð Örvar Hansson fyrir hönd Umhverfisstofnunar. Frá þessu segir á Faceboosíðu Friðlýstra svæða í Mývatnssveit.

Dimmuborgir samningur
Á myndinni þakka þeir Daði og Davíð hverjum öðrum fyrir gott samstarf.

Með gildistöku áætlunarinnar er tekin í gagnið skýr starfsáætlun um hvernig verndargildi Dimmuborga verði viðhaldið. Liður í því er m.a. talning ferðamanna sem sækja svæðið heim en Landgræðslan, Umhverfisstofnunog Háskóli Íslands vinna nú að talningu ferðamanna sem mun gefa skýra mynd af fjölda ferðamanna á svæðinu. Með aukinni þekkingu á fjölda ferðamanna og dreifingu á gestakomum eykst yfirsýn sem gerir uppbyggingu á svæðinu markvissari.

Undirritunin er táknrænn endir vinnuferlis sem hófst í desember og lauk á gróskumiklum rigningardegi í Dimmuborgum. Áhugasamir geta kynnt sér efni áætlunarinnar á heimasvæði Dimmuborga á www.umhverfisstofnun.is