Skref í rétta átt -segir ferðaþjónustuaðili

0
112

Þetta er skref í rétta átt, en það hefði átt að vera búið að taka þetta skref fyrir löngu síðan”, sagði Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn, í spjalli við 641.is í dag. Fjallasýn er búið að skipuleggja ferðir með ferðafólk upp að Kattbekingi, eftir að Almannavarnir breyttu umfangi lokunarsvæðisins á hálendinu norðan Vatnajökuls í gær og þar með er orðið leyfilegt að fara með ferðafólk í námunda við eldgosið í Holuhrauni. Fyrsta ferð Fjallasýnar með ferðafólk til þess að berja eldstöðvarnar augum úr um 10 km fjarlægð er á áætlun á mánudag og er þegar uppselt í hana.

Rúnar Óskarsson
Rúnar Óskarsson

“Við stefnum á að bjóða upp á daglegar útsýnisferðir að eldstöðvunum, en veður og færð koma auðvitað til með að ráða þar miklu um. Við vitum að það verður ekki alltaf hægt að fara þarna upp eftir. Það er mjög lítill snjór á svæðinu og færið því erfitt þar sem nánast ekkert hjarn er til að keyra á”, að sögn Rúnars. Lagt verður upp frá Sel-hótelinu í Mývatnssveit um hádegisbil og keyrt beinustu leið úr Mývatnssveit að Dyngjufjöllum og í gegnum Dyngjufjalladal. Rúnar segist reikna með að ferðin taki 10-12 klukkutíma fram og til baka.

“Ég hef fengið fjöldan allan af fyrirspurnum um ferðir þarna upp eftir í allan vetur aðallega frá útlendingum, en það er ekki fyrr en fyrst núna sem ég get farið að taka við bókunum”, sagði Rúnar.

Fleiri aðilar í ferðaþjónustu á svæðinu eru líka farnir að bjóða upp á útsýnisferðir að Holuhrauni, eins og sagt er frá á vísi.is í gær og að sögn Rúnars verða þessir aðilar væntanlega í samfloti í þessum útsýnisferðum. “Það er öryggisatriði að vera samferða í þessum ferðum” segir Rúnar.

Rúnar hefur gagnrýnt það mjög hve stórt lokunarsvæðið hefur verið allt frá því þegar umbrotin hófust um miðjan ágúst í fyrra. “Þetta hefur valdið okkar fyrirtæki miklu tjóni og ég get ekki skilið af hverju Jökulsárgljúfur eru enn lokuð”, bætti Rúnar við.

Fjallasýn.is