Framhaldsskólinn á Laugum var settur síðdegis í gær í íþróttahúsinu á Laugum. 100 nemendur munu stunda nám við Framhaldsskólann í vetur, sem er ívið færra en í fyrra.
Í máli Valgerðar Gunnarsdóttur skólameistara kom fram að nýhafið skólaár væri það tuttugasta og fimmta hjá Framhaldsskólanum á Laugum og hið áttugasta og áttunda síðan skólahald hófst á Laugum haustið 1925, en þá var Laugaskóli héraðsskóli.
Í máli Valgerðar kom einnig fram að í vetur verður haldið áfram að vinna að nýrri námskrá, sem gert er ráð fyrir að komi til fulls til framkvæmda við skólann haustið 2014.
Gerðar hafa verið breytingar á starfsemi íþróttahússins. Þær stafa fyrst og fremst af miklum niðurskurði á fjárframlögum frá ríkinu til framhaldsskóla á Íslandi. Framhaldsskólanum á Laugum var gert að skera niður um 18 milljónir á árinu 2012 eða 10%. Til að mæta því verður nú dregið úr opnunartíma íþróttahússins og það kemur fyrst og fremst fram á helgaropnun. Íþróttahúsið verður því lokað frá hádegi á föstudögum og fram á mánudagsmorgun.
Undanfarin tvö ár hafa átt sér stað endurbætur á heimavistinni Álfasteini, sem ekki hefur verið notuð sem slík síðan vorið 2000, enda óíbúðarhæf. Þakið var endurnýjað og þakkantur og rennur, gert var við utanhúss skemmdir á húsinu og það málað, ásamt gluggum, sem einnig voru endurnýjaðir að hluta. Í vetur var svo hafin vinna við að endurnýja heimavistina á annarri hæð. Allt var hreinsað út af hæðinni og byggt upp frá grunni.
Þar eru nú 7 tveggja manna herbergi með baði, sem leysa vistina í Dvergasteini af hólmi, en hún verður lokuð á haustönninni. Það er gríðarlega mikil breyting sem hefur átt sér stað í Álfasteini og herbergin hin glæsilegustu.
Starfmenn og kennarar við skólann eru nú 40, að meðtöldum skólanefndarmönnum og voru 7 af þeim sæmdir silfurmerki skólans eftir 10 ára starf við skólann.
Að lokinni skólasetningunni í íþróttahúsinu var öllum viðstöddum boðið að þiggja veitingar í matsalnum í gamla skóla.
Lesa setningarræðu skólameistara hér