Skólapælingar

0
93

Mikill tími og orka hefur farið í skólamál í Þingeyjarsveit síðasta áratuginn eða svo og fer enn. (Að því að mér skilst líka oft áður, eins og varðandi Laugaskóla og síðar íþróttahús.) Mestu máli virðist skipta hvar skóli eða skólar eru staðsettir. Minna hefur farið fyrir umræðunni um hvernig skólarnir eigi að vera, um gæði þeirra. Vera má að þetta stafi af því að hið fyrra sé svo umdeilanlegt en hið síðara svo sjálfsagt að óþarft sé að hafa nokkur orð um það. Við viljum jú öll það sama. Góða skóla (sumir svona í fleirtölu en aðrir í eintölu og þá endar fyrra orðið á enn).

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Í góðum skóla starfa áhugasamir og metnaðarfullir kennarar ötullega að því, samhliða öðru góðu starfsfólki skólans og áhugasömum og velviljandi foreldrum, að laða fram það besta í hverju barni því til þroska og vegsemdar, samfélaginu til heilla og framþróunar. Svona skóla vil ég – þetta er mín skólastefna. Hvaða leið er best að þessu marki veit sjálfsagt enginn (eða hver og einn veit að hans leið er best) og sjálfsagt má fara fleiri en eina leið (svo framalega sem það stangist ekki á við mína leið, hugsa einhverjir).

En eitt er víst að illt er að fara af stað án þess að hafa hugsað það hvert skuli haldið. Það er erfitt fyrir kennara að viðhalda áhuga og metnaði þegar óvissan er mikil, erfiðara fyrir nemendur að ná árangri og stuðningur foreldra minnkar.

Fyrir nokkrum dögum setti ég inn hugmynd að framtíðarsýn í skólamálum fyrir Þingeyjarsveit. Með því hafði ég vonast til þess að koma af stað opinberi umræðu um málefnið. Það verður ekki öðruvísi sem okkur tekst að komast niður á farsæla lausn í sem mestri sátt hvert við annað. Hverjum manni ætti þó að vera ljóst að við munum aldrei komast að niðurstöðu sem allir verða fullkomlega sáttir við. Þetta er sumum mjög viðkvæmt og erfitt mál og næsta víst að einhverjir munu í kjölfar breytinganna, ef ekki flytja úr Þingeyjarsveit þá, flytja lögheimili sitt annað. Af þessum sökum finnst mér afar brýnt að farin verði leið sem takmarkar tjónið. Flest viljum við jú öflugt sveitarfélag sem hefur efni á að bjóða okkur upp á hátt þjónustustig og á að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir til uppbyggingar samfélagsins, til bættra búsetuskilyrða. Til þess að það sé hægt má okkur ekki fækka of mikið frá því sem nú er.

Þar sem ég tel að fólk vilji helst af öllu halda í skóla sem nærþjónustu setti ég fram hugmynd um að reka skóla á sem flestum stöðum í sveitarfélaginu – í það minnsta á Hafralæk, Laugum og Stórutjörnum. Á sama tíma set ég fram hugmynd um það hvernig mætti hugsanlega bregðast við þeirri staðreynd að nemendum hefur fækkað verulega bæði á Hafralæk og Stórutjörnum síðasta áratuginn, og mun hugsanlega halda áfram að fækka. Hvað er best að gera?

 

1994-1995

2004-2005

áætlað
2014-2105

Stórutjarnaskóli

64

58

46

Litlulaugaskóli

36

46

38

Hafralækjarskóli

107

82

36

Aðalsteinn Már Þorsteinsson.