Skemmtileg mynd síðan 1950

0
381

Hér er gömul ljósmynd, sem talið er að sé tekin vestan við íbúðarhúsið í Ártúni í Út Kinn. Myndin er tekin þegar Kvenfélag Þóroddsstaðasóknar bauð Kvenfélagi Ljósavatnssóknar heim. Myndin barst í hendur Áslaugar Kristjánsdóttur, sem var uppalin í Hlíð í Kinn. Hún hefur ásamt fleirum unnið að því að nafngreina allar konurnar og nú hefur það tekist, eftir því sem best er vitað. Ásu datt í hug að margir hefðu gaman af þessari gömlu mynd. Ef einhverjir telja rangt farið með nöfnin, hafið þá samband við aðra hvora þeirra systra, Ásu með netfang aslaugkri@hotmail.com eða Hjördísi systur hennar á netfangið hkss@simnet.is, en hún hefur lagt þessu verkefni lið. Með góðri kveðju frá Ásu og Dísu. Þær sendu með gamlar fundargerðir til gamans, sem Aðalgeir Kristjánsson gróf upp á Safnahúsinu á Húsavík.

kvenfélagskonur og fl.
kvenfélagskonur og fl.

Kvenfélagskonur o.fl. úr Þóroddsstaða og Ljósavatnssóknum 1950.
1. Guðný Stefánsdóttir Eyjardalsá.
2. Kristín Þórðardóttir Hnjúki.
3. Kristín Halldórsdóttir Hlíð.
4. Magnea Sigurðardóttir Hóli
5. Sigrún Hermannsdóttir Hvarfi
6. Hulda Baldvinsdóttir Engihlíð
7. Elín Gísladóttir Ingjaldsstöðum
8. Kristjana Jónatansdótir Nípá
9. Nanna Jónsdóttir Vatnsenda
10. Þóra Sigurgeirsdóttir Hrafnsstöðum
11. Þóra Kristinsdóttir Lækjamóti
12. María Valdimarsdóttir Landamótsseli
13. Sigríður Kristjánsdóttir Halldórsstöðum
14. Helga Friðgeirsdóttir Ystafelli. ?
15. Líney Gísladóttir Ingjaldsstöðum
16. Björg Kristjánsdóttir Granastöðum .
17. Guðrún Sigurbjarnardóttir Úlfsbæ
18. Halldóra Sigurbjarnardóttir Finnsstöðum
19. Sigurbjörg Jónsdóttir Ófeigsstöðum
20. Ólína Jónsdóttir Hlíðarenda
21. Friðrika Kristjánsdóttir Fremstafelli
22. Fanney Jónsdóttir Hvarfi
23. Anna Kristjánsdóttir Fellsseli
24. Hildur Eiðsdóttir Ártúni
25. Friðrika Jónsdóttir Fremstafelli
26. Jóhanna Sigmundsdóttir Ytri –Skál
27. Arnheiður Jónsdóttir Granastöðum f. 1942
28. María Kristjánsdóttir Geirbjarnarstöðum
29. Guðrún Kristjánsdóttir Granastöðum
30. Elín Ingjaldsdóttir Staðarholti
31. Steinunn Einarsdóttir Úlfsbæ.
32. Nanna Gísladóttir Garðshorni
33. Kara Arngrímsdóttir Ystafelli
34. Halldóra Jónsdóttir Gvendarstöðum
35. Guðrún Marteinsdóttir Hrafnsstöðum
36. Björg Sigurðardóttir Björgum
37. Hólmfríður Sigurðardóttir Fosshóli
38. Guðný Jónsdóttir Granastöðum, f. 1947
39.Kristín Kristjánsdóttir Landamótsseli
40. Klara Guðlaugsdóttir Landamóti
41. Anna Guðrún Guðmundsdóttir Arnstapa
42. Baldvin Kristinn Baldvinsson Rangá
43. Sigrún Jónsdóttir Rangá
44. Kristín Jónsdóttir Granastöðum.

Til að fá myndirnar stærri þarf að smella á myndina, bíða og smella svo aftur.

allir með sitt númer
allir með sitt númer

Fundargerðir úr Kinn.

Sunnudaginn 5. Febrúar 1950 var fundur haldinn í kvenfélagi Kinnar að Þóroddsstað.

Á fundinum mættu 13 konur.

  1. Forstöðukona las samningsuppkast að reglugerð fyrir Menningarsjóð þingeyskra kvenna og jafnframt bréf frá Helgu Kristjánsdóttur á Þverá, til skýringar málinu. Sjóðurinn hafði verið stofnaður 1913, en tekinn til láns til styrktar byggingu Húsmæðraskólans að Laugum 1929, að upphæð kr. 3.048. Er nú hugsað til að efla sjóðinn og semja nýja reglugerð fyrir hann.

Var uppkastið rætt í öllum liðum og komu engar breytingar fram, var það samþykkt einu hljóði.

  1. Á fundinum kom fram svohljóðandi tillaga: Fundur haldinn í kvenfélagi Kinnar að Þóroddsstað 5. febrúar 1950, skorar á sveitarstjórnina að láta ganga til atkvæða um stofnun sjúkrasamlags í Ljósavatnshreppi, í sambandi við aðrar kosningar á komandi vori.
  2. Slysavarnarmál. Nefnd sem kosin var í málinu á síðasta fundi áminnt um að láta skríða til skara með framkvæmdir sem allra fyrst.
  3. Saumanámsskeiðsnefnd.

Þessar konur kosnar: Sigurbjörg Jónsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Þóra Sigurgeirsdóttir.

Áður kosin skemmtinefnd beðin að halda áfram störfum. Fundargerðin lesin upp, fundi slitið.

Anna Kristinsdóttir. Kara Arngrímsdóttir.

Fundur í kvenfélagi Kinnar, haldinn í Fellsseli 2. júlí 1950.

Forstöðukonan Anna Kristinsdóttir setti fundinn og bauð konur velkomnar.

Las hún síðan bréf frá Aðalbjörgu Bjarnadóttur, varðaði það væntanlegan sambandsfund, sem halda á í júlí að Laugum. Hófust síðan umræður um aðalmál fundarins, sem var heimboð kvenfélagsins í Ljósavatnssókn.

Urðu fjörugar umræður um fyrirkomulag og undirbúning hófsins og virtist fundarkonum enginn helgidagur ónotaður þeim til umráða, svo þær hugðust reyna að skapa helgidag og varð 8. júlí fyrir valinu. Ákveðið var að móttakan skuli fara fram að Granastöðum og Ártúni.

Um bakstur ætlaði seint að nást niðurstaða, og var búið að nefna allar kökusortir er vitað var um. Eftir alls kyns útúrdúra og hliðarsveiflur náðist þó endanleg niðurstaða og virtust allar konur ánægðar. Hófust þá kosningar. Fundarkonur eggjuðu Önnu forstöðukonu til að taka forsætið, en hún baðst undan endurkosningu í byrjun og var það eins og að skvetta vatni á gæs að orða slíkt.

Stjórnarkosning fór þannig:

Forstöðukona: Þóra Sigurgeirsdóttir Hrafnsstöðum

Til vara: Hulda Baldvinsdóttir Engihlíð.

Ritari: Kara Arngrímsdóttir Yztafelli

Til vara: Sigrún Jónsdóttir Rangá

Gjaldkeri: Kristín Halldórsdóttir Hlíð

Til vara: Sigrún Jónsdóttir Rangá.

Kosning fulltrúa á sambandsfund fór þannig.

Kosnar voru: Helga Friðgeirsdóttir og Hulda Baldvinsdóttir.

Til vara: Kristín Jónsdóttir Ártúni og Sigurbjörg Jónsdóttir Ófeigsstöðum.

Var nú fundarhlé og buðu hjónin upp á kaffi. Var húsbóndinn, Kristján Ingjaldsson búinn að taka allt brauð til og laga kaffið, kom hann með dúkinn á handleggnum og bakkann í höndunum og skipti það engum togum að allt var á borðinu og sátum við glaðar og reifar með rjúkandi kaffið í bollunum og hrokaða kökudiska fyrir framan okkur og nutum gestrisni þeirra hjóna.

Síðan var sleginn botninn í fundinn. Fundargjörðin lesin upp og fundi slitið.

Hélt svo hver heim til sín ánægð með góðan dag.

Í forföllum ritara og vararitara.

Sigrún Jónsdóttir.