Sjötta úthlutun VAXNA

0
119

Á fundi sínum 11. október sl. samþykkti verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands að veita sjö verkefnum vilyrði um þátttöku. Alls bárust tíu umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um rúmlega 26,0 mkr. en áætlaður heildarverkefniskostnaður var 63,4 mkr. Heildarupphæð veittra styrkvilyrða var tæpar 8,0 mkr. og er heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu áætlaður um 37,6 mkr.

Fulltrúar verkefna: Arnheiður – Hólmfríður – Bjarni Páll – Sigurlína – Helgi – Sigríður – Gréta. Mynd: atthing.is
Fulltrúar verkefna: Arnheiður – Hólmfríður – Bjarni Páll – Sigurlína – Helgi – Sigríður – Gréta. Mynd: atthing.is

 

Með þessari úthlutun hefur verið úthlutað úr yfirstandandi samningi til 31 verkefnis, samtals 60,3 mkr. og standa um 20 mkr. eftir til ráðstöfunar en samningurinn gildir út árið. Hefur verkefnisstjórn ákveðið að næsti umsóknarfrestur verði 5. nóvember.

Styrkvilyrði voru afhend á veitingastaðnum Sölku 22. október.  Þau verkefni sem vilyrði hlutu að þessu sinni eru:

Skoruvíkurbjarg – bætt aðgengi að Stórakarli – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili Langanesbyggð og samstarfsaðilar Náttúrustofa Norðausturlands, Félag eggjatökubænda og Ferðamálafélagið Súlan. Verkefnisstjóri er Ólafur Steinarsson. Markmið verkefnisins er uppbygging ferðamannastaðar til að fylgja fjölgun ferðamanna, m.a. til að vernda náttúruna og auka öryggi ferðamanna. Útsýnispallur í Skoruvíkurbjargi er hluti af þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er, en súlubyggðin í Skoruvíkurbjargi hefur mikið aðdráttarafl og þar er mikilvægt að tryggja öryggi ferðamanna.

Léttsöltuð frosin grásleppuhrogn – allt að kr. 1.525.000,- Forsvarsaðilar GPG Seafood ehf. og samstarfsaðilar eru Samtak sf og Gintaras Poskus. Verkefnisstjóri er Páll Kristjánsson. Markmið verkefnisins er að fullþróa tiltekna vinnslu grásleppuhrogna og finna þeirri framleiðslu nýjan markað. Markmið er að framleiða frosna vöru úr grásleppuhrognum til markaðssetningar í Rússlandi þar sem mikil hefð er fyrir neyslu fiskhrogna. Grásleppuhrogn eru á Íslandi nær eingöngu söltuð á hefðbundin hátt ár hvert og seld fullsöltuð í tunnum til áframvinnslu í Evrópu og á Íslandi.

MýSköpun – Greining lífefna úr þörungum
 – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili er MýSköpun ehf. og samstarfsaðilar Háskólinn á Akureyri og Náttúrufræðistofnun Íslands (Akureyrarsetur). Verkefnisstjóri er Arnheiður Rán Almarsdóttir. Markmið verkefnisins er að nota þörunga sem nú þegar er búið að einangra og greina og skilgreina þá betur. Þörf er á að gera ýtarlegar rannsóknir á þörungunum, til að mynda þarf að gera fitusýrugreiningu, DNA greiningu og ítarlega efnafræðilagarannsókn á samsetningu lífefna sem þörungarnir eru að framleiða. Einnig felur verkefnið í sér að taka enn fleiri sýni og rækta, greina og skilgreina þörungana sem þar safnast.

Þingeyskar fingurbjargir – markaðssetning  – allt að kr. 520.000,- Forsvarsaðili er Þingeyskar fingurbjargir og samstarfsaðilar eru 5 aðilar klasans. Verkefnisstjóri er María Hermundsdóttir. Markmið verkefnisins er markaðssetja framleiðsluvörur samstarfshópsins en þær eru tengdar safnmunum frá Byggðasafni Norður-Þingeyinga að Snartarstöðum. Liður í markaðssetningu er að koma söluvefsíðu á laggirnar.

Námsmannaferðir og kynning – allt að kr. 500.000,- Forsvarsaðili er Jarðskjálftafélagið á Kópaskeri og samstarfsaðilar Gistiþjónustan á Kópaskeri, Hótel Skúlagarður og Þekkingarnet Þingeyinga. Markmið verkefnisins er að bjóða upp á áhugaverð námskeið, vettvangsferðir og þjónustu fyrir jarðfræðinema auk þess að byggja upp tengslanet við Háskóla Íslands og Háskólana í Osló og Stokkhólmi.

Hestatengd ferðaþjónusta – markaðssetning – allt að kr. 1.000.000,- Forsvarsaðili er Saltvík ehf og samstarfsaðilar Hrossaræktarfélög Eyfirðinga og Þingeyinga, Húsavíkurstofa, Svisshólar í Sviss og Ferðaskrifstofan Riding Iceland.  Verkefnisstjóri er Bjarni Páll Vilhjálmsson. Markmið verkefnisins er að markaðssetja einstaka viðburði tengda hestinum auk þess að bjóða upp á upp á hnitmiðaðar ferðir  þar sem ýmis önnur afþreying og upplifun sem Ísland er þekkt fyrir verður í boði . Einnig er um bætta nýtingu reiðhalla og viðburðir tengdum þeim að ræða.

Litlir landkönnuðir – allt að kr. 375.000,- Forsvarsaðili er Þekkingarnet Þingeyinga  og samstarfsaðilar Langanesbyggð og Svalbarðshreppur. Verkefnisstjóri er Gréta Bergrún Jóhannesdóttir.  Verkefnið gengur út á frekari þróun og hönnun á ævintýrakorti fyrir ferðamenn sem koma í Bakkafjörð, á Langanes og í Þistilfjörð. Ferðaþjónustuaðilar hafa lengi sagt að ferðamenn stoppi styttra við þar sem það skorti afþreyingu og þá sérstaklega fyrir fjölskyldufólk sem ekki er að leggja uppí langar gönguferðir með börn meðferðis. Kortið veitir fróðleik og upplýsingar og er skemmtilegt.   Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.