Sjö spurningar

0
164

641.is sendi sveitarstjóra og oddvita Þingeyjarsveitar sjö spurningar sl. mánudag um það ma. hvernig starfslokum fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla sé háttað. Fram kom í fundargerð 165 fundar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að gerður hafi verið starfslokasamningur við Hörpu Hólmgrímsdóttur fráfarandi skólastjóra þingeyjarskóla. Í ljósi þess að nýbúið er að ráða nýjan skólastjóra sem taka á til starfa að fullu 1. apríl nk. eins og segir í fundargerðinni, þótti ritstjóra eðlilegt að fá svör við nokkrum spurningum sem óneitanlega vakna. Svör sveitarstjóra og oddvita eru feitletruð.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

1. Stendur það til að birta starfsloksamning við fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla á vef Þingeyjarsveitar? Nei

 

2. Ef ekki, af hverju ekki ? (Ef já, hvenær þá ?)
Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sem gilda gagnvart Þingeyjarsveit til 1. janúar 2016, sbr. 4. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er um að ræða mál sem varðar einka og fjárhagsmálefni einstaklings sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Hér er því svarað að eldri upplýsingalög, lög 50/1996 gildi um Þingeyjarsveit. Nú má velta vöngum yfir því hvers vegna eldri lög gildi þegar ný hafa verið sett. En við höfum orðið sammála um að um opinbera starfsmenn gildi aðrar reglur en óbreytta þegna þjóðfélagsins. Miðað við nýju lögin þá er gerður alveg klár greinarmunur á því hvort um einstakling sé að ræða eða æðsta stjórnanda. Upplýsingalögin snúast um það að almenningur geti haft aðhald með stjórnvaldinu, þ.e.a.s. og í þessu tilviki er stjórnvald að deila út opinberum fjármunum. Þegnar þessa stjórnvalds hafa fullan rétt á að vita hvernig þeim er útdeilt. Það er hafið yfir vafa. Vafamálið er hins vegar hvort fráfarandi skólastjóri sem er opinber starfsmaður sveitarfélagsins og klárlega einn æðsti stjórnandi innan þess sveitarfélags geti notið verndarákvæðisins um einkahagsmuni.

3. Er það rétt að gengið hafi verið frá starfslokasamningnum sl. miðvikudag, eða daginn áður en ákveðið var að ganga til samninga við nýjan skólastjóra ?
Það er rétt að sl. miðvikudag, 25. febrúar var gengið skriflega frá þeim samningi sem aðilar gerðu með sér í upphafi árs. Viðmiðunardagur samningsins er 20. janúar 2015.

4. Hafa fulltrúar minnihlutans í sveitarstjórn fengið að sjá starfslokasamninginn ?
Þeim eins og öðrum sveitarstjórnarfulltrúum var gerð grein fyrir samkomulaginu, einnig að þeir gætu kynnt sér það sérstaklega hjá sveitarstjóra þegar og ef þeir óskuðu þess.

Það eru því einungis örfáir aðilar sem geta skoðað samninginn, en hann er samkvæmt heimildum 641.is, til í amk. einu prentuðu eintaki til sýnis fyrir þessa fáu útvalda á skrifstofu Þingeyjarsveitar. Óheimilt er að taka af honum afrit.

5. Sagði núverandi skólastjóri sjálf upp störfum eða var henni sagt upp störfum ?
Aðilar gerðu með sér samkomulag um starfslok

6. Ef svarið er nei við spurningum nr.5 af hverju var auglýst eftir nýjum skólastjóra þegar ljóst var að núverandi skólastjóri ætlaði að halda áfram ? (Ekkert svar)

Hér er fátt um svör….

7. Munu aðrir starfsmenn njóta sömu kjara (biðlaun eða stafslokasamningur) þegar þeim verður rétt uppsagnarbréfið í vor, eða gildir þetta bara fyrir skólastjórann ?
Spurningin vísar í atvik sem eru ekki fyrir hendi.

641.is óskaði nánari skýringar á því hvernig verður tekið á málefnum þeirra starfsmanna sem ekki fá vinnu við Þingeyjarskóla næsta haust. Í svari frá sveitarstjóra og oddvita var vísað í fyrra svar með þeim orðum að það “felist í spurningunni tilvísanir til atvika sem ekki liggja fyrir. Því er ekki hægt að svara þessari spurningu með öðrum hætti en þegar hefur verið gert“.

Þetta svar er varla hægt að túlka öðruvísi en á þann veg að ekki sé búið að ákveða með hvaða hætti, fólki verður sagt upp sem ekki verður pláss fyrir í Þingeyjarskóla. Nokkrir íbúar sveitarfélagsins búa núna við nagandi óvissu um afkomu sína og framtíðar búsetuskilyrði í Þingeyjarsveit og að svara því ekki hvað standi til að gera eykur á óvissuna hjá þeim. Samkvæmt heimildum 641.is mun nýr skólastjóri ákveða hvaða starfsfólk heldur starfinu og hverjir ekki. Framhaldið er óljóst.

 

Ritstjóri vill taka það skýrt fram að með þessum spurningum er ekki vegið að neinu leiti að stöfum fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla. Fráfarandi skólastjóri á allan rétt til þess að fá viðunandi starfslokasamning þar sem henni var ekki sagt upp störfum og hún sagði heldur ekki upp störfum, samkvæmt svörum sveitarstjóra og oddvita. Það er einfaldlega hennar réttur.

Þetta snýst um vinnubrögð, gegnsæi, samræðu og upplýsingagjöf til íbúanna frá meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

 


 

Ritstjóri vill þakka oddvita og sveitarstjóra fyrir skjót svör við spurningunum og einnig fyrir það að birta lista yfir umsækjendur um starf skólastjóra Þingeyjarskóla og einu fundargerð starfshóps um móvægisaðgerðir um daginn