Sjálfboðastarf og hinn sanni „ungmennafélagsandi“ björgunarsveitanna er afar mikilvægt samfélagsverðmæti

0
155

Á sunnudagskvöldi 9.september 2012 byrjaði veður að versna víða um norðanvert landið.   Í hásveitum og á fjallvegum mokaði niður snjó. Þegar kom fram á aðfaranótt mánudagsins jók mjög í vind og úrkoman breyttist í flóð.    Um miðja nóttina geysaði fellibylur með jafnaðarvind upp á 45-65 m/sek og hviður upp yfir 100 m/sek. og krapahríð í Mývatnssveit og víða um nágrannabyggðir.

Grænavatn.

Björgunarsveitir fengu fyrstu útköllin um miðja nótt – – og allan mánudaginn 10.september var verið að reyna að aðstoða vegfarendur og huga að slitnum raflínum.    Augljóst virðist að  spár og upplýsingar Veðurstofu Íslands í aðdraganda óveðursins og meðan fárviðrið geysaði voru í besta falli í „skötulíki“ . . og engar aðvaranir voru sendar út til Almannavarna að frumkvæði veðurvaktarinnar.

Mývetningar og  Bárðdælingar og hluti Reykdælinga sátu í rafmagnsleysi – – innilokaðir í fárviðri – og áttu í mestu erfiðleikum með að bjarga inn búsamala sem var við bæjarveggi – vitandi um fjölda fjár í hættum bæði í nágrenni bæja og í afréttum.

Í þann mund þegar veðri slotaði á þriðjudagsmorgun freistaði ég þess að komast frá Akureyri og á hamfarasvæðið – vitandi að þörf væri fyrir allar fúsar hendur til hjálpar.     Það vakti sérstaka athygli að um hádegi á þriðjudegi var ekki búið að hreinsa snjó af Víkurskarði né Mývatnsheiði og ófært mátti heita á Baldursheimsveginum og Grænavatnsvegi.    Veghefillinn kom ekki til að hreinsa Grænavatnsveginn fyrr en kominn var fimmtudagur . . .

Um eftirköst hamfaranna hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum og ekki munu öll kurl komin til grafar enn.

Kominn á vettvang á Grænavatni voru heimamenn ekki nærri búnir að átta á sig á því hvað raunverulega hafði gerst og sáu raunar ekki hvað þeir í smæð sinni gætu einir aðhafst.   Í Baldursheimi voru menn að berjast við að ná heim þeim lömbum  – – sem voru uppistandandi, af túnum við Þórólfshvol –  grafa önnur úr fönn og draga upp úr kílum og krapi úr Krákánni.      Það var þar sem skyndilega birtist fjöldi björgunarsveitarmanna – fyrst frá Súlum á Akureyri, en einnig voru nokkrir úr Björgunarsveitinni Stefáni í Mývatnssveit búnir að vera á vettvangi frá því fært varð.    Menn gengu að verki með hófsemd og af fumleysi og skönnuðu stöðuna með aðdáunarverðum hætti.   Áður en maður vissi voru fjölmargir vélsleðar á fullri ferð að tína saman kindur,   menn gengu í röðum með stangir og sjálfboðaliðar með skóflur grófu í skafla og kíktu undir bakka.    Heimamenn og aðvífandi sjálfboðaliðar voru með tiltæk tæki og áhöld til að flytja það sem ekki gat gengið – –

Þegar búið var að safna saman því sem náðist í fljótu bragði – – lifandi og dauðu – – var tekin hljóðlát ákvörðun um að flytja til þungann af leitinni – líta eftir fullorðnu fé – – og hugað  að því hvað væri hægt að gera á Grænavatni.      Fleiri björgunarsveitir komu á svæðið,  Dalbjörg, Tindur, Ægir, Týr og fleiri frá Súlum á Akureyri.   Sigurður Erlingsson gerðist móttökustjóri og sagði mönnum til  – – fyrsta spölinn í Sellönd.   Frænka mín,  nær sjötugu,  settist upp í björgunarsveitarbíl á blöðrudekkjum og leiðbeindi ökumönnum – – á meðan vélsleðamenn sneiddu lengri leiðir.      Fjölda fjár var hjálpað úr sköflum og undan börðum á þessum fyrstu klukkustundum  á þriðjudag 11. september.   Ekki veittist ráðrúm til að undirbúa eða skipuleggja nákvæma eða yfirvegaða leit . . . en þessir fyrstu klukkutímar reyndust að mínu mati afgerandi fyrir mitt fólk – – í rafmagnsleysi – – að fá að vita að menn væru ekki einir í þessu.

Bændur hafa tilhneigingu og vilja „til að bera sig vel“ – – þegar á bjátar –  frekar að menn „barmi sér“ þegar ekki er endilega tilefni til.   Þess vegna hygg ég að mörgum hafi reynst brekka að biðja um aðstoð og að skipuleggja aðra til vinnu og verka.   Sjálfboðaliðar – – frændfólk og vinir – og nágrannar – komu víða að til liðsinnis næstu dagana – með bíla sína og hunda og leystu mörg verk vel af hendi við afar erfiðar aðstæður.

Fyrir mína hönd og nákominna langar mig að láta í ljósi þakklæti til björgunarsveitanna á Norðurlandi –  og reyndar um land allt – – fyrir það hvernig menn gengu að verki á hamfarasvæðum og fyrir það hversu mikla virðingu menn sýndu fénaðinum og fólkinu á vettvangi.       Það voru björgunarsveitirnar sem könnuðu vettvanginn og staðfestu við lögregluyfirvöld að þarna höfðu orðið hamfarir og við því yrði að bregðast.    Það var frumkvæði sjálfboðaliðasamtaka sem þurfti til að vekja yfirvöldin – – til aðgerða og lýsa Almannavarna-ástandi, en viðvörunarkerfin sem áttu að vera til staðar fyrirfram fengu einungis rangar veðurspár eins og allur almenningur.

Nú reynir á okkur sem með einhverjum hætti tengdumst hamfaravettvangi Norðurlands og nutum og njótum liðsinnis þessa góða fólks sem vinnur í björgunarsveitunum að staðfesta þakklæti okkar og virðingu.   Það vil ég gera fyrir mína parta.   Í starfi björgunarsveitanna álít að liggi mikilvægasta samfélagsverðmæti sem við eigum um þessar mundir.  Hlúum að því.

Benedikt Sigurðarson.