Sjálfbær bóndi og rafbíleigandi í Bárðardal

0
435

Tryggvi Valdemarsson, bifvélavirki og bóndi á bænum Engi í Bárðardal, er að öllum líkindum sjálfbærasti bíleigandi landsins en við bæinn setti hann á sínum tíma upp rafstöð og eignaðist á dögunum rafbíl sem hann hleður að sjálfsögðu með raforku sem hann framleiðir sjálfur. Fréttatíminn.is segir frá.

Tryggvi og rafbíllinn. Mynd: Valdimar Tryggvason
Tryggvi og rafbíllinn. Mynd: Valdimar Tryggvason

„Ég hef nú alltaf verið spenntur fyrir rafmagni og fæddist í torfbæ árið 1942 sem var raflýstur. Svo er auðvitað mun umhverfisvænna að keyra um á rafbíl en bensínbíl,“ segir Tryggvi um ástæður rafbílakaupanna. Rafbíll Tryggva er af gerðinni Nissan Leaf og var valinn bíll ársins í Japan og Evrópu árið 2011. Tryggvi er bjartsýnn á að notkun rafbíla eigi eftir að aukast hér á landi á næstu árum. „Til þess þarf margt að koma til sem hvetur almenning til að nota frekar rafbíla. Það er til dæmis mikil hjálp í því að sleppa við greiðslu virðisaukaskatts en samkvæmt núgildandi reglum er hann felldur niður af fyrstu sex milljónunum. Rafbílaeigendur sleppa einnig við greiðslu bifreiðagjalda. Með svona aðgerðum er hægt að ýta þróuninni áfram,“ segir Tryggvi og bendir á að því fleiri sem aki um á rafbílum, því fleiri hleðslustöðvar verði settar upp.

Að sögn Tryggva eru börn sem heyra af rafbílnum mjög hrifin af eiginleikum hans. „Eðlilega hafa börnin áhyggjur af framtíðinni því þau heyra mikið talað um mengun og hlýnun loftslags sem í framtíðinni verða þeirra vandamál en við fullorðna fólkið höfum búið til. Þau verða því voða glöð að heyra af bíl sem mengar ekki,“ segir Tryggvi.

Undir húddinu. Mynd: Valdimar Tryggason.
Undir húddinu. Mynd: Valdimar Tryggason.

Tryggvi segir búnað rafbílsins mun einfaldari en í hefðbundnum bensínbíl því það séu ekki margir hlutir sem snúist í rafbílum. „Það þarf ekki að skipta um olíu og bílinn er mjög einfalt að keyra. Sami takkinn er til að stýra því hvort bíllinn fer áfram eða aftur á bak, svo er bremsa og stýri svo þetta er alveg ótrúlega einfalt og krafturinn er góður.“ Tryggvi telur að þó rafbílar séu dýrari en bensínbílar í innkaupum séu þeir, þegar á heildina er litið, ódýrari í rekstri því aðeins kosti þrjár krónur að keyra kílómetrann á rafbíl. Á Nissan Leaf er hægt að keyra hundrað til hundrað og fjörutíu kílómetra á einni hleðslu. „Svona bíll er því alveg fullkominn fyrir bæjarfólk því það keyrir nú sjaldan meir en hundrað kílómetra yfir daginn,“ segir Tryggvi sem var á leið í fyrstu ferðina á rafbílnum, í næstu sveit og til baka.

Hinn laglegasti bíll. Mynd: Valdimar Tryggvason.
Hinn laglegasti bíll. Mynd: Valdimar Tryggvason.

 

(Þessa frétt skrifaði Dagný Hulda Erlendsdóttir og birtist hún í Fréttatímanum í gær og fékk 641.is góðfúslegt leyfi til birtingar á henni)