Síminn “útvíkkar” sína þjónustu. En ekki í Þingeyjarsveit, Mývatnssveit, Grenivík, Kópaskeri eða Raufarhöfn

0
251

Síminn “útvíkkar” enn þjónustu sína á landsbyggðinni með því að færa 53 nýjum stöðum Ljósnetið á árinu. Ljósnet á staðina þýðir meiri hraða, öflugra net og bætta sjónvarpsþjónustu fyrir þúsundir landsmanna. Þegar búið verður að uppfæra þessa staði standa aðeins 1,4% landsmanna án fullrar sjónvarsþjónustu hjá Símanum, nærri helmingi færri en nú”, segir ma. á heimasíðu Símans. Það vekur mikla furðu að ekki á að tengja ljósnetið á Laugum og ekki í Reykjahlíð, á Kópaskeri, á Grenivík eða á Raufarhöfn.

Staðirnir sem fá ljósnetið. Íbúar í dreifbýli fá það ekki
Staðirnir sem fá ljósnetið. Íbúar í dreifbýli fá það ekki. Mynd af vef símans.

641.is spurði Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúa Símans í dag, hvort svæðin sem ekki fá ljósnetið til sín á árinu eða því næsta, ættu að sitja alveg eftir og hvort til stæði að bæta þjónustuna eittthvað við þessi svæði í framhaldinu ?

 

 

Í svari Gunnhildar Örnu koma fram að Síminn tók þá ákvörðun að herða útbreiðslu ljósnetsins á árinu og koma því inn á sem flest heimili á landsbyggðinni. Við gerum það með því að uppfæra búnað í símstöðvum bæjanna, sem gefur stórum hluta þessara þéttbýlisstaða færi á að fá ljósnet. Í kjölfarið munum við leggja búnað í götuskápa svo hverfi í jaðri bæjanna fái einnig sama hraðann og Síminn býður best.

“Við höfum ekki tekið ákvörðun um framhaldið. Allur mannskapur okkar fer í þessa ljósnetsvæðingu. Þótt Laugar, Reykjahlíð, Mývatnssveit og aðrar dreifaðir byggðir Þingeyjasýslu séu ekki með í þetta sinn er ljóst að nú er Síminn að gefa í og hraða áformum sínum um uppbyggingu á landsbyggðinni. Það er harla ólíklegt að hann láti staðar numið þegar þetta verkefni er í höfn. Nú þegar geta 62 þúsund fjölskyldur nýtt Ljósnetið og stefnir Síminn að því að heimilin verði 100 þúsund um mitt ár 2014”.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir fyrirtækið mjög stolt af því að geta boðið Ljósnetsþjónustuna utan höfuðborgarinnar. „Ljósnetið hefur fengið frábærar viðtökur þar sem það er í boði. Við höfum verið í góðu sambandi við forsvarsmenn fjölmargra sveitarfélaga undanfarna mánuði og það er greinilega mikill áhugi á að fá kraftmeiri tengingar og aðgang að fullri sjónvarpsþjónustu á Sjónvarpi Símans.“ Sævar Freyr segir að vegna þess hve vel landsmenn hafa tekið Ljósnetinu hafi verið ákveðið að hraða uppbyggingu þess á landsbyggðinni.

„Við vitum hve mikilvægt er fyrir sveitarfélög landsins að sitja ekki eftir á tækniöld, því fjarskipti skipa lykilsess í grósku samfélaga og farsæld fyrirtækja. Við gerum því okkar besta svo fjarskiptin stýri ekki byggðaþróuninni í landinu heldur skapi tækifæri fyrir landsmenn að hasla sér völl þar sem þeir vilja helst.“

Staðirnir sem fá ljósnetið á næstunni eru: Akranes, Keflavík, Njarðvík, Selfoss, Vestmannaeyjar, Hveragerði, Þorlákshöfn, Garður, Sandgerði, Eyrarbakki, Kjalarnes, Hvolsvöllur, Stokkseyri, Hella og Hafnir. Ísafjörður, Húsavík, Sauðarkrókur, Siglufjörður, Dalvík, Blönduós, Ólafsfjörður og Hrafnagil. Egilsstaðir, Höfn, Neskaupsstaður, Reyðarfjörður, Stykkishólmur, Ólafsvík, Eskifjörður, Bolungarvík, Seyðisfjörður, Grundarfjörður, Vopnafjörður, Fáskrúðsfjörður, Patreksfjörður, Hellissandur, Hvammstangi, Skagaströnd, Vík, Djúpavogur, Flúðir, Þórshöfn, Bakkafjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík, Búðardalur, Tálknafjörður, Suðureyri, Þingeyri, Flateyri, Bíldudalur og Hnífsdalur.

Síminn.is