Sérkennileg sameining

0
101

Nú er að hefjast fjórða önnin frá því að Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli urðu að einni stofnun sem heitir Þingeyjarskóli. Því miður hefur sameining þessi valdið vonbrigðum og breytingarnar hafa ekki staðið undir væntingum. Sífelldur akstur með börn á milli skóla er ekki til þess fallinn að auka gæði skólastarfsins og tvo daga í viku er börnunum ekið í einn skóla og seinna sama dag ekið aftur í annan skóla. Þetta hefur aukið mjög veru barna í skólabílum og lengt aksturstíma á heimleiðum.

Atli Vigfússon
Atli Vigfússon

Því má trúa að sumt af þessu hafi ýtt undir skólaleiða hjá nokkrum nemendum, en engin ástæða er til þess að alhæfa neitt um það. Hins vegar líður ekki öllum börnum vel með þetta sífellda rót og allir sem vinna að uppeldismálum, vita það vel, að það besta fyrir börnin er festa í skólastarfinu og það er festan sem gerir þau ánægð á sínum vinnustað sem skólinn er.

 

Einn skóli á einum stað

“Það eru allir leiðir á þessu,” sagði einn ungur Aðaldælingur nýlega um skipulag skólamála og þetta fjalla ekki bara um börnin heldur líka um allt það starfsfólk sem vinnur við skólana. Hafi það verið ætlunin að sameina þessa skóla á einum stað hefði verið best að gera það strax eða allavega eftir fyrstu önnina. Allir vita að það kostar sársaukatímabil að leggja niður annan skólann, en með því fyrirkomulagi sem er í dag er verið að lengja óvissuna um það hvort á að sameina á einum stað eða ekki. Sé það ekki ætlunin að stofna einn skóla í sama skólahúsnæðinu er miklu betra að láta ferlið ganga til baka frekar en að standa í sífelldum keyrslum með börnin á milli skóla. Þá er líka ljóst að núverandi fyrirkomulag hefur ekki sparað peninga á neinn hátt.

Það er enginn skóli í Þingey

“Þingeyjarskóli” er nokkuð athyglisverð nafngift, en hefð er því í Suður-Þingeyjarsýslu að skólar heiti eftir þeim stað þar sem þeir eru staðsettir sbr.Borgarhólsskóli við Borgarhól, Hafralækjarskóli í landi Hafralækjar, Litlulaugaskóli í landi Litlulauga, Reykjahlíðarskóli í Reykjahlíð og Stórutjarnaskóli við Stórutjarnir.
Þingey er eyja í Skjálfandafljóti þar sem engin byggð er og er auk þess vestan Fljótsheiðar og því hvorki í Aðaldal né heldur landfræðilega í Reykjadal. Sé horft á nafnið beint þá er eins og skólinn sé í Þingey sem hann er að sjálfsögðu ekki. Eðlilegra hefði verið að breyta ekki nafni skólanna tveggja fyrr en vitað væri hvert stefndi og nota nafn þess staðar þar sem einn skóli yrði stofnaður hafi það verið ætlunin. Sé það nauðsynlegt að nota sameiginlegt nafn þá liggur ljóst fyrir að nafn eins og “Grunnskóli Þingeyjarsveitar” kemur vel til greina.
Í Eyjafjarðarsveit voru grunnskólarnir sameinaðir í einn og eðlilegt var talið að nota nafn þess staðar þar sem skólinn er til húsa þ.e. í Hrafnagilsskóla.

Upprót hefur neikvæð áhrif á nemendur

Segja má að þessi sameining hafi veikt báða skólana sem voru báðir sterkar stofnanir í smæð sinni. Það felst í því að alltaf þarf að vera að hugsa um hvað er að gerast í hinum skólanum og helst þarf allt að vera eins. Báðir skólarnir höfðu sín sérkenni og sínar hefðir, en það getur verið erfitt að rugla reitum og getur það stundum haft neikvæð áhrif á skólastarfið.
Nýjasta dæmið í því var að færa haustannarpróf eða svokallaða námsmatsdaga í Hafralækjarskóla aftur fyrir jólin, en venja hefur verið undanfarin ár að taka þessi próf fyrir jól og ljúka haustönninni áður en fríið byrjar. Þessi breyting nú var gerð með þeim rökstuðningi að þetta væri svona á Litlulaugum og samkeyra þyrfti úrvinnslu gagna. Með þetta voru nemendur unglingastigs Hafralækjarskóla óánægðir sem vildu gjarnan ljúka þessum prófum fyrir jól m.a. til þess að eiga þetta ekki allt eftir í skólabyrjun í janúar.
Með þessu sleit Hafralækjarskóli í sundur þá námstörn sem oftast hefur verið tekin eftir árshátíð skólans sem var að venju seinni hluta nóvember. Þá vekur furðu að tími skyldi vera til að keyra börnin tæpa viku í danskennslu í desember suður í Litlulauga og róta upp stundaskránni enn og aftur, en danskennsla er samkvæmt hefð í Hafralækjarskóla í lok janúar.
Því miður hefur svona upprót neikvæð áhrif á námið og eðlilegt hefði verið að bera þessa breytingu undir foreldrafélagið og nemendur sjálfa, en það sem er skemmtilegt við litla skóla er að gera foreldra og nemendur virka í ákvarðanatöku til þess að hafa þá með sér og hafa þá ánægða í því sem verið er að gera.

Veik staða er vond staða

Með tveimur starfsstöðvum veikist staða skólastjórans þannig að það þarf að dreifa kröftum á tvo staði og viðvera í tveimur skólum verður alltaf minni en í einum skóla. Hvað sem skólastjórinn er góður þá getur hann ekki verið bæði í Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla á sama tíma. Það þýðir að persónuleg tengsl við nemendur verða minni, en mjög mikilvægt er að skólastjóri sé í skólanum alla virka daga meðan skóli starfar. Það er hluti af styrkleika stofnunarinnar.
Úti í samfélaginu, hvort sem það er lítið eða stórt, þurfa skólar að vera sterkir og Hafralækjarskóli sýndi á sér veika hlið þegar hann ályktaði ekki um breytingar á högum Reykhverfinga í skólanum, en skólaráði ber samkvæmt grunnskólalögum að vera umsagnaraðili um slíkt.
Hafi skólaleiði aukist með þessari sameiningu þýðir það líka að skólinn missir töluvert af styrkleika sínum og veik staða er vond staða.

Skólar þurfa að þróa og þroska kennsluaðferðir

Miðað við þann tíma sem liðinn er frá sameingu skólanna í Aðaldal og Reykjadal þá virðist of mikill tími og áherslur liggja í því að keyra á milli og vita hvenær á að gera eitthvað saman og hvenær á ekki að gera eitthvað saman. Þetta getur bitnað á þróun kennsluhátta og hvernig kennarar vinna sína kennslu.
Hafralækjarskóla veitir ekki af sínum tíma í að vinna að því, eins og öðrum skólum, að þróa og þroska vinnuaðferðir til þess að vanda vel til kennsluhátta eins og hann hefur auðvitað gert á margan hátt. Hins vegar er enginn skóli svo góður að ekki megi gera betur og því verður ekki neitað að vinna með lesblindu, sértæka lestrarörðugleika og stafsetningarerfiðleika hefði mátt vera faglegri á síðustu árum. Því var það mikil vonbrigði að ekki fengist sérkennari að hinum sameinaða skóla á sl. ári þegar auglýst var eftir slíkum. Þá vekur athygli að á síðustu 10 árum hafa aldrei verið fyrirlestrar um lesblindu og lestrarvanda auk þess sem aldrei hefur verið farið yfir lestraraðferðir með foreldrum.

Hvert liggur leiðin?

Þeir sem skólamálum ráða í Þingeyjarsveit þurfa að gera upp við sig hvert stefnir í þróun skólastarfsins. Sú óvissa sem legið hefur í loftinu bráðum í tvö ár hefur nú þegar valdið báðum skólunum erfiðleikum og veikt þá báða. Á það skal bent að ef skólinn sameinast á einum stað þá yrði það meira en helmingi minni skóli að nemendafjölda heldur en Hafralækjarskóli var í upphafi. Mannfjöldaþróun í héraðinu hefur verið í eina átt og barnafólki hefur fækkað jafnt og þétt. Allir þurfa að vera færir um að horfast í augu við þá staðreynd, en allt annað væri sjálfsafneitun.
-Sameiningin eins og hún er í dag er sérkennileg, en vonandi bíður barnanna betri tíð í skólanum á komandi hausti.

Atli Vigfússon