Séra Gunnar

0
632

Séra Gunnar Einar Steingrímsson er fæddur á Akureyri 1974 og elst þar upp að mestu leyti fyrirutan eitt ár þar sem fjölskyldan var á Ströndum. Árið 1997 flutti hann og konan hans, Erla Valdís Jónsdóttir, suður til náms.  Erla fór í sjúkraþjálfaranám en Gunnar tók BA í guðfræði og kennarapróf. Gunnar kláraði svo djáknanám  og starfaði sem djákni í Grafarvogskirkju frá 2009 til 2012 en áður hafði hann starfað sem æskulýðsfulltrúi í kirkjunni. 2012 flutti fjölskyldan til Noregs þar sem Gunnar vígðist sem prestur.

Hjónin búa á Laufási ásamt þremur börnum sínum. Prestakallið er kennt við Laufás en þar hefur líklega verið kirkja frá upphafi kristni á Íslandi enda fornt höfuðból. Núna er þar lítil sveitakirkja byggð 1865. Prestakallið er mjög víðfemt, frá Grenivík fram í Bárðardal.

Af hverju fórstu í djáknann?

Það bara þróaðist þannig. Ég var ákveðinn frá barnæsku að verða prestur. Ég hef alltaf verið trúaður og mamma kenndi mér bænir og biblíusögur. Ég hef alltaf verið í kristilegu starfi.

Hvaða munur er á því að vera djákni eða prestur?

Djákninn er meira í þjónustu í safnaðarstarfinu, í safnaðarþjónustu. Hann sinnir barna- og æskulýðsstarfi. Öldrunarstarfi og fer á sjúkrahúsin. Presturinn kemur vissulega að þessu líka en hann er meira í að embætta og sjá um athafnir.

Við þekkjum náttúrulega öll söguna um Djáknann á Myrká. Hér áður fyrr var djákni meira eins og meðhjálpari. En ef við förum alla leið til baka í frumkirkjuna í Ísrael og Róm þá var enginn prestur, bara djáknar og biskupar. Djáknaembættið sem slíkt er því mjög gamalt.

Er munur að starfa í sveit og borg?

Nei, fólkið er alveg það sama. Ég upplifi sterka virðingu fyrir kirkjunni og sókninni bæði hér og í Reykjavík. Burtséð frá hvað fólki finnst um kirkjuna sem bákn og yfirstjórn kirkjunnar en gagnvart kirkjunni sinni heima í sveit upplifi ég ekki annað en jákvæðni og virðingu. Ég fann það líka úti í Noregi.

Veturinn hefur verið sérstakur. Ég er settur prestur hér 1. nóvember  og vígður 15. janúar. Þá eru stórhríðir og vetrarveður. Svo kom Covid. Í vor þegar fór að losna um þá var fólk á kafi í sauðburði. En það er vonandi hægt að koma safnaðarstarfinu af stað núna í haust.

Séra Gunnar.

Núna eru ungir prestar komnir á TikTok. Finnst þér að kirkjan ætti að koma meira til fólks?

Ertu að meina kirkjan sem bákn eða einstaklingar innan kirkjunnar? Því það er munur. Kirkjan sem bákn stendur náttúrulega fyrir sínu og er á meðal fólks. En mér finnst líka frábært að ungir prestar eins og Sindri noti sér þessa miðla eins og TikTok, mér finnst það alveg brilljant. En það er ekki ég. Þeir eru líka yngri en ég.

Kirkjan er svo breið og við erum svo ólík við getum notað mismunandi hluti og það sem okkur er gefið.

Fólk leitar í trúna á erfiðum stundum. En núna er kirkjan kannski svolítið fornfáleg í huga fólks svo leitar kannski annað.

Ég fagna flóru kristninnar á Íslandi af því að við erum svo ólík. Það sem hentar einum hentar ekki endilega þeim næsta. Þjóðkirkjan er breið og misjöfn. Það er líka á vissan hátt hlutverk kirkjunnar að standa vörð um hin gömlu gildi.

Kirkjan á að vera eins og járnbrautarlest, hún á að vera fyrsti vagninn  sem dregur áfram en líka síðasti vagninn sem rekur lestina.

Kirkjan á að breytast með fólkinu og þjóðfélaginu og fólkinu en hún á kannski að vera síðust til að breytast. Kirkjan þarf að standa með báða fætur á jörðinni og einmitt vera þessi klettur sem fólk getur leitað til. Það er lítið í kirkjunni sem kemur á óvart og þú veist nákvæmlega að hverju þú gengur. Það er mjög mikilvægt þegar veröldin er að hrynja í kringum þig að það geta leitað í þetta öryggi.

Núna var Agnes að biðja hinsegin fólk afsökunar á framkomu kirkjunnar. Hafa prestar enn samviskufrelsi til að neita að gefa saman samkynhneigt fólk?

Mér fannst frábært hjá Agnesi að biðja afsökunar því auðvitað kom kirkjan illa fram. Ég held að þetta samviskufrelsi sé ekki gilt lengur. Í mínum huga er þetta ekkert vandamál. Ef samkynhneigt par leitaði til mín þá væri það ekkert vandamál.

Þú finnur allt í þjóðkirkjunni. Styrkur kirkjunnar felst í því að innan kirkjunnar er breið flóra. Ef þú vilt ungan og nútímalegan prest  eða gamaldags og stífan þá finnur þú hann í þjóðkirkjunni. Sama hvernig kristindóm þú aðhyllist þá áttu að finna hann innan þjóðkirkjunnar.

Hvað um þinn frítíma? Hvað gerir þú þér til skemmtunar?

Ég er hef gaman að fótbolta þótt ég spili hann ekki. En krakkarnir spila og ég öskra á hliðarlínunni. Liverpool er annars uppáhalds fótboltaliðið. Auðvitað.

Svo erum við með sauðfé í Laufási. En ég er mjög blautur á bak við eyrun í búskapnum og hef grun um að það verði fjallað um það á þorrablótinu.

Var Þorgeir ljósvetningagoði trúaður?

Það er spurning. En hann var mjög klókur maður. Við skulum heita kristin en megum blóta heiðin goð á laun svo báðir aðilar vinna. Hann var mjög mikill pólitíkus.

Ég þakka séra Gunnari kærlega fyrir gott og skemmtilegt spjall.

 

Ljósmyndir: Gunnar Marteinsson með góðri hjálp frá nafna sínum.