séra Bolli Pétur kvaddi söfnuðinn

0
784

Kæri söfnuður!

Ég vil byrja á því að óska ykkur hjartanlega til hamingju með nýjan sóknarprest hann séra Gunnar Einar Steingrímsson og konuna hans hana Erlu Valdísi Jónsdóttur og afkvæmi þeirra sem mæta senn hingað í prestakallið til þjónustu, lífs, starfa og leikja.

Það veit ég að hér verður tekið vel á móti þeim og þau munu koma með mikla og góða reynslu í farteskinu frá Noregi. Ég hef trú á því að sú reynsla muni auðga bæði kirkjulífið hér og samfélag í Laufásprestakalli. Guð blessi það allt og varðveiti!

Maður þarf að vera ánægður með sitt. Ég gat unað mér við það sem ég gerði sem er betra en að líka alla tíð illa við það sem maður hefur.”

Þessi orð hafa sótt töluvert á mig upp á síðkastið. Einhver gæti haldið að þarna væri um forna speki að ræða utan úr hinum stóra heimi en það þarf ekki að leita lengra en í Bárðardalinn þaðan sem orðin eru ættuð frá Hvarfi eignuð Jóni Hermannsyni bónda sem kvaddur var hinstu kveðju fyrir um mánuði síðan.

Þannig leit hann Jón yfir farinn veg við ævilok, yfirlit sem endurspeglar vissa sátt og þakklæti fyrir gjafir lífs, viðhorf sem síst lítur á allt sem sjálfsagt heldur þarf að sá til að uppskera.

Ég get ekki annað sagt en ég sé ánægður með mitt og sáttur við það sem ég gerði og umfram allt þakklátur er ég lít yfir þennan tæpa áratug sem ég hef þjónað hér í prestakallinu.

Áður en lengra er haldið í þessari prédikun verð ég að viðurkenna að hér mun ég tala meira en oft áður í 1. persónu eintölu sem ófáir prédikunarsérfræðingar telja óheppilegt þar sem prédikarinn á ekki að hafa sjálfan sig að markmiði í útlistun boðskaparins heldur á Kristur og orð hans þar einkum að skína.

Það má vera satt en við þetta tækifæri trúi ég því þó að Kristur láti það ekki trufla sig þó ég tali dálítið út frá sjálfum mér á kveðjustund, ég fer þá bara með syndajátningu oftar en einu sinni er ég legg höfuð á kodda í kvöld.

Eitt er það sem einkenndi talsvert starf mitt í Laufásprestakalli voru ferðirnar allar enda prestakallið víðfemt. Ég kunni alls ekki illa við þessar ferðir þó bakið hafi aðeins verið farið að kvarta en þar get ég líka kennt holdauka um. Þvert á móti fannst mér oft bæði eftirsóknarvert og notalegt að vera á ferðinni. Ég minntist þess þá jafnframt að í skírnarboði Jesú og kristniboðsskipun segir til að byrja með, „Farið!”

Kristniboðar, prestar, þjónar kirkju og kristni sem annarra trúarbragða eru því eðli málsins samkvæmt töluvert á ferðinni, segja má að kirkjan sé líka fjöldahreyfing á ferð og skiptir máli að hún sé samferða samfélögum fólks í þjónustu sinni, viðhorfum, ákvörðunartökum, hún fær líka bágt fyrir ætli hún sér að nema staðar og spyrna við fótum og hvíla í kyrrstöðunni, það er segin saga.

En þetta var svona smá útúrdúr. Á ferðum mínum í prestkallinu þar sem ég var að fara til fundar við sóknarfólk, í gleði þess jafnt sem sorg, þá lét ég oft hugann reika svo framarlega sem ekki var alltof hált á vegum, en þá verður maður nú að hafa einkum hugann við aksturinn eins og móðir mín minnti mig ósjaldan á. Ófáar prédikanir urðu til við stýrið, meira að segja fáeinar kveikjur í ritið Kveikjur sem er víst loksins uppselt og þar fram eftir götum.

Þá fæddust hugmyndir við stýrið sem skiluðu sér inn í safnaðarstarfið og ýttu við þeirri viðleitni minni að vilja gera allar þjóðir að lærisveinum. Það var t.a.m. fljótlega eftir að ég kom í Laufás að þá var ég að keyra framhjá Miðvík og sé þar Ómar Ingason fyrrum kúabónda á Neðri-Dálksstöðum einan á göngu.

Hann var vel búinn með göngustafi og bakpoka og fleira þarft. Þetta vakti eftirtekt mína þar sem þarna var um að ræða föstudaginn langa og ég spurði mig hvort þetta væri píslarganga bóndans í anda frelsarans enda veður ekkert spes.

Ég innti hann eftir þessu næst þegar ég hitti hann og þá var hann búinn að stunda þessa göngu á föstudaginn langa um skeið og kunni vel við siðinn sem hafði lítið sem ekkert rofnað í nokkurn tíma.

Ég hugsaði í næstu bílferð hvort ekki væri snjallt að fá fleiri til að ganga með honum Ómari og þannig varð til föstuganga í Laufás frá þremur kirkjustöðum í prestakallinu og hefur hún verið haldin síðan árið 2010. Veðrinu hefur enn ekki tekist að koma í veg fyrir góðan útivistarviðburð og hollan. Þetta er ganga með Kristi, samheldið samfélag á ferð, kirkjan á ferð. Og lögreglan og björgunarsveitir umdæmisins ásamt Guði hafa verið nærverandi, vakað yfir og verndað, það er þakkarvert enda allt gengið áfallalaust fyrir sig.

Og áfram héldu ferðirnar. Ég hafði einn mjög traustan ferðafélaga og það var Ríkisútvarpið, Rás 1. Þar hlustaði ég á ófáa hugvekjandi og fróðlega þætti þar sem fólk talaði saman um heima og geima. Í einum viðtalsþættinum var verið að fjalla um gildi þess að kynslóðir töluðu saman og fengju að hittast, hvað það væri dýrmætt og mikilvægt að börn fengju að heyra sögur gamla fólksins og um reynslu þess af lífinu og að það fengi sömuleiðis að heyra hvað ungviðið hefði í hyggju og gæti þar af leiðandi gefið því ráð varðandi framtíðina.

Út frá þessu spratt sú hugmynd hjá klerki að ræða við hana Fjólu forstöðukonu Grenilundar og fá að koma þangað í heimsókn með fermingarhóp og skapa þar gæðastund- og hring með heimilisfólki. Það var eftirminnilegt spjall og báðar kynslóðir nutu þess að spyrja og miðla. Það vakti kátínu viðstaddra þegar farið var út í það hvað eldri kynslóðin hafði fengið í fermingargjöf á fermingardaginn.

Konur úr sveitinni minntust þess að hafa fengið að velja sér lamb á deginum stóra. Og sum hver sem ólust upp í þéttbýliskjörnum fengu t.d. armbandsúr að gjöf sem þótti afskaplega fínt. Ég tók eftir augum ungmennana sem opnuðust upp á gátt enda höfðu þau aðrar hugmyndir, þar var meira farið út í snjallsíma og fartölvur.

En það var einu orði sagt dásamlegt að fylgjast þarna með því hvað heimilisfólkinu á Grenilundi var umhugað um velferð unga fólksins og það gaf því mörg góð ráð í veganesti sem við flokkum undir holl lífsgildi og heilbrigt gildismat.

Þetta var sönn og góð fræðslustund. Það var ekki síður ánægjulegt þegar sunnudagaskóla kirkjunnar var boðið á Grenilund en þar tóku ungir sem aldnir virkan þátt saman í söng og sögum og Rebbaleikritum, allir sungu Daginn í dag í hljómmiklum og glöðum kór.

Sumt af eldra fólkinu hafði á orði að það hefði aldrei upplifað sunnudagaskóla áður og fannst þetta virkilega hressandi athöfn. Eftir þessar sameiginlegu stundir gat ég vel tekið undir orð viðmælenda í útvarpsþættinum forðum sem tjáðu sig um gildi þess að kynslóðir kæmu saman. Kynslóðir koma, kynslóðir fara.

Ég kom í Laufás árið 2009 frá því að hafa þjónað sem prestur í Seljahverfi í Breiðholtinu í Reykjavík. Þetta var á þeim tíma þegar töluverður áróður var hafinn gegn samstarfi kirkju og skóla.

Það megum við vel vita að þetta eru tvær mjög mikilvægar uppeldisstofnanir í sérhverju þjóðfélagi. Ég hafði séð að miklum hluta um samstarf kirkjunnar í Seljahverfi við leikskóla og síðan var mikið og gott samstarf við grunnskólana þar.

En sviðið var að breytast þarna og áróðurinn skilaði sér vel, ótta var sáð í samfélagið og kristinn boðskapur á margan hátt gerður tortryggilegur og er enn. Hann hins vegar lifir það alveg af einmitt vegna sanninda sinna. Núna þegar ég er mættur á ný á höfuðborgarsvæðið sér maður að sviðið er mjög breytt en samt sem áður er enn vettvangur fyrir samstarfi í tengslum við áföll og sorgarvinnu og það er gott og blessað.

Það skiptir líka gríðarlega miklu máli að uppeldisstofnanir geti talað saman í tengslum við allt slíkt enda er það staðreynd að mikið er leitað til kirkjunnar í sambandi við allt er snýr að ástvinamissi og öðru því sem veldur sorg í tilvistinni. Á jafn fjölmennum vinnustað og skóla er hætt við því að áföll eigi sér stundum stað og sálgæsla og sú tengslavinna sem hún felur í sér því mikilvæg.

Þetta starf fer eðli málsins samkvæmt hljóðlega fram, sálgæsluhlutverk kirkjunnar verður aldrei að neinu auglýsingafyrirbrigði eða fésbókarkynningarefni vegna þess að þar ber að virða trúnað, sálgæsla er með öðrum orðum trúnaðarstarf.

Ég hins vegar fann að góður grunnur var fyrir hendi í samstarfi við skólastofnanir í Laufásprestkalli sem forveri minn hann Pétur var augljóslega búinn að sinna og rækta. Ég tók þar við góðu búi. Ég fann fyrir feginleika komandi úr krefjandi hringiðu og orrahríð.

En segja má að það sem ég ætlaði mér að koma að í þessum skólakafla kveðjuprédikunar var fastur liður einn í góðu samstarfi við Valsárskóla á Svalbarðsströnd, að hinum skólunum ólöstuðum, það var jólahelgileikurinn hans pabba sáluga, mikið sem mér þótti óskaplega vænt um það og ég gleymi því ekki hvað það yljaði.

Valsárskóli undirbjó það allt með miklum sóma og kom með alla leikendur og margt fleira í kirkjuna, gömlu búningarnir og leikmunirnir voru og eru enn fyrir hendi í safnaðarstofunni, handritið óbreytt, c.a. fertugur helgileikur. Þegar hann var fluttur skapaðist helgi í allri kirkjunni, börn og foreldrar brostu út að eyrum, vitringur gat jafnvel verið svolítið utan gáttar vegna þess að hann var að fylgjast með mömmu og pabba út í kirkju, ábúðarfullur engill sagði eins hátt og hann gat „sjá ég boða yður mikinn fögnuð” og mamma og pabbi gátu ekki leynt kátínunni og allt skóp það ómengaða gleði viðstaddra.

Og það ekki hvað síst vegna þess að mamma og pabbi höfðu sjálf gegnt þessum hlutverkum forðum og voru þarna að rifja upp glaðar minningar og jafnvel amma og afi sáu sig sjálf í hlutverkunum hér áður fyrr. Þannig hefur kirkjan verið með tímanum á ferð, á stöðugri hreyfingu, lifandi kirkja. Megi þessi helgileikur lifa sem lengst með samfélaginu.

Og að lokum langar mig til að minnast myndar sem ég hef ávallt og ætíð í huga og minnir mig á nærveru Guðs og þar með orðin, „Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.” Það var dag einn að ég skaust austur að Ljósavatni til þess að leysa af sem kirkjuvörður í svokallaðri vegkirkju sem starfrækt var í Þorgeirskirkju.

Það dýrmæta starf féll reyndar niður vegna niðurfellingar á fjárstyrkjum í verkefnið sem er mikill missir bæði fyrir heimamenn, kirkjuna, ferðaþjónustuaðila sem og fyrir þjóðina alla því eins og ég hef margsinnis sagt þá er Ljósavatn vagga hinnar íslensku kristnisögu því þar bjó Þorgeir lögsögumaður Þorkelsson sem tók þá miklu ákvörðun og flutti þá fræga ræðu árið 1000 á Þingvöllum að Íslendingar skyldu taka upp kristinn sið. Með nýlegri stofnun hollvinasamtaka Þorgeirskirkju trúi ég hins vegar að margt gott á eftir að gerast hér.

En nóg um það þessi mynd er mér minnisstæð þar sem í Þorgeirskirkju kom stór hópur erlendra ferðmanna n.t.t. frá Bandaríkjunum. Þetta var sólbjartur dagur, náttúran skartaði sínu fegursta og þar af leiðandi var altarisgluggamyndin guðdómleg. Ég sagði það líka hópnum að altarsglugginn vekti venjulegast mikla eftirtekt og það sem hann birti sköpun Guðs.

Þá gerist það að hópurinn sest niður og leiðsögumaðurinn sest við píanóið og byrjar að leika lagið Draumlandið eftir Sigfús Einarsson, þið heyrið það í huganum, lagið er perla. Hann lék það líka alveg einstaklega vel.

Ég stóð í safnaðarstofunni á meðan og hafði augun bæði á altarisgluggamyndinni og hópnum. Þá tek ég eftir því að flest ef ekki öll augu viðstaddra urðu tárvot og fjölmargir farnir að þurrka sér um augun, þetta var helg stund, þarna skapaðist augljóslega guðdómleg stemmning og stund hjá ferðafólki sem það gleymir seint ef nokkurn tímann, með Draumlandið í eyrum og í augum í björtu húsi helguðu Guði sem var áþreifanlega nærverandi í hverju tári sem gat verið hvort í senn gleðitár og sorgartár, tár minninga, tár bæna fyrir hinu ókomna.

Ég viðurkenni það að tárin mín eru kannski jafnblendin er ég kveð Laufás og prestakallið og það fallega mannlíf sem það geymir, en lífið er breytingum háð og prestsstarfið býður víst upp á það að maður sé talsvert á ferð enda hefst jú kristniboðsskipunin á þessu boði „Farið!” Um leið og ég þakka fyrir mig og mína, fyrir gott samstarf og sannan og hlýjan hug í okkar garð, okkar Sunnu Dóru og barna okkar og fjölskyldu, langar mig til að flytja ykkur ljóð eftir skáldkonuna Gerði Kristnýju um Laufás er ber titilinn Laufás 1935 og birtist í nýrri ljóðabók hennar Heimsskaut.

Henni er einkar lagið að draga upp ljóðmyndir sem eru litaðar stemmningu og af því „almenna og sammannlega” eins og það er orðað á bókarkápunni.

Ég er ekki frá því að Laufásstaðurinn sjálfur hafi að mörgu leyti orðið til þess að ég varð prestur vegna þess að í bernsku minni kom þangað fjöldi gesta af öllum þjóðernum sem ég hitti fyrir t.a.m. við að sýna gamla torfbæinn og þegar maður elst upp við það að hitta mannlífsflóru þessa heims þá verður maður ósjálfrátt spenntur fyrir mannfólkinu, eðli þess, ólíkum hugðarefnum, tengslum, viðhorfum, frásögnum og lífssýn og þá er prestsstarfið alls ekki sísti kosturinn til að kynnast mennskunni og þar er hún meira að segja til umfjöllunar í ljósi guðdómsins.

Laufás 1935

Frúin í upphlut,

börnin böðuð og fín.

Rúsínurnar

horfðu út úr

jólakökunni,

kleinurnar

sneru upp á sig

á sparidisk.

Aðeins það besta

fyrir þýska gestinn

sem bar að garði

á miðjum slætti.

Samt hafði hann

seinna á orði

að sér hefði liðið

eins og í skotgröfunum!

Í gamla bænum!

Svona líka hlýjum

Og ilmandi!

Þaðan í frá

fannst öllum

að hrossagaukurinn

hneggjaði

eins og hríðskotabyssa.

Innilegustu þakkir kæru vinir og kveðjur og ég segi það satt að þrátt fyrir allt er ég bara ánægður með mitt, hvað svo sem verður og hvað svo sem ég mun hafa í framtíðinni þá get ég ávallt yljað mér við þann tíma sem ég hef átt með ykkur, og það sem hér hefur verið gert í tíð minni sem sóknarprestur í Laufásprestakalli.

Verið Guði falin!