Seigla – miðstöð sköpunar

0
369

Á 177. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í Kjarna á Laugum í gær lagði Aníta Karin Guttesen verkefnsstjóri mótvægisaðgerða fram framvinduskýrsla um mótvægisaðgerðirnar. Þar kom fram að þegar er hafin starfsemi í fyrrum húsnæði Litlulaugaskóla.

Litlulaugaskóli haus
Krílabær og Litlulaugaskóli

Urðarbrunnur, þekkingar- og þróunarsetur og Þekkingarnet Þingeyinga er flutt inn í húsnæðið, en Urðarbrunnur hefur verið með aðstöðu hingað til í Framhaldsskólanum á Laugum.

“Heimaslóð – Efling búskapar í héraði“ sem er verkefni á vegum Búnaðarsambandana í Þingeyjarsýslum hefur tímabundna aðstöðu fyrir einn starfsmann í húsnæðinu og síðan verður opið hús fyrir félagsstarf eldri borgara í Þingeyjarsveit í húsnæðinu. Þá er Bókasafn Reykdæla og mötuneyti/eldhús fyrir leikskólann Krílabæ með sína starfsemi þar líkt og áður.

Verkefnastjóri lagði til að starfsemin fá nafnið „Seigla – miðstöð sköpunar“ og lagði einnig fram kostnaðaráætlun upp á 4 milljónir króna vegna úrbóta sem talið er nauðsynlegt að fara í vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er. Sveitarstjórn samþykkti að starfsemin hljóti nafnið Seigla – miðstöð sköpunar. Einnig samþykkti sveitarstjórn kostnað vegna endurbóta á húsnæði að fjárhæð 4 milljónir króna og samþykkir þá upphæð sem viðauka við fjárhagsáætlun 2015 sem mætt verði með handbæru fé.

Nú á haustdögum mun verkefnastjóri boða til kynningarfundar og auglýsa eftir umsóknum um aðstöðu í húsinu.

177. fundur.