Sauðfjárslátrun hófst hjá Norðlenska í dag

0
172

Sauðfjárslátrun hófst formlega í dag hjá Norðlenska á Húsavík, þegar rúmlega 1000 dilkum var slátrað úr Eyjafirði og af Austurlandi. Á næstu dögum verður dilkum úr Mývatnssveit slátrað og síðan í framhaldinu úr öðrum sveitum á Norðurlandi.

Úr sauðfjárrétt Norðlenska á Húsavík. Mynd: Nordlenska.is
Úr sauðfjárrétt Norðlenska á Húsavík. Mynd: Nordlenska.is

 

145 manns starfa hjá Norðlenska á Húsavík í sláturtíðinni og að sögn Sigmundar Hreiðarssonar vinnslustjóra er vinnustaðurinn með alþjóðlegum blæ því um helmingurinn af starfsfólkinu er erlent og kemur það frá 17 löndum. Allt erlenda starfsfólkið kemur frá Evrópu en flestir frá Norðurlöndunum, Póllandi og Englandi. Þar á meðal eru nokkrir vanir breskir slátrarar sem koma ár eftir ár og sumir hafa starfað hjá Norðlenska í sláturtíð í meira en 10 ár.  Aðspurður um það hvort ekki væri þörf á túlk í vinnslusalnum sagði Sigmundur að það væri óþarfi því það skilja allir alla, eftir fáeina daga. Síðan er öflugur kjarni heimafólks, frá Húsavík og nærsveitum hjá Norðlenska í sláturtíðinni og er það fyrirtækinu gríðarlega mikilvægt að fá það góða starfsfólk til starfa ár eftir ár.

Sigmundur telur að húsið verði komið í full afköst strax í næstu viku, en þá er planið að slátra um 2.200 dilkum á dag. Sigmundur reiknar með að um 80.000  fjár verði slátrað hjá Norðlenska á Húsavík í sláturtíðinni og stefnt sé að því að sláturtíð ljúki 25. október.

Samstarf við bændur gengur vel nú sem endranær og er það mjög mikilvægt. Bændur eiga fyrirtækið og því þeirra hagur sem og okkar, sem vinnum hjá Norðlenska, að öll skipulagning gangi sem best upp. Það hefur tekist mjög vel til með það í gegnum tíðinna, sagði Sigmundur að lokum.