Sauðfjárbændafundur í Ýdölum – Bændur óttast hrun í greininni – Engar lausnir í sjónmáli

Fækkun um 90.000 kindur í haust taldar óraunhæfar

0
981

Mjög fjölmennur fundur sauðfjárbænda úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslunum báðum var haldinn í Ýdölum í Aðaldal í gærkvöld, en til hans var boðað vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem blasir við í sauðfjárrækt í kjölfar 35% lækkunar á afurðaverði til bænda, sem sláturleyfishafar hafa boðað. Fulltrúar úr stjórnum Bændasamtakanna og Landssambands sauðfjárbænda voru á staðnum og sögðu m.a. frá viðræðum sínum við ráðherra Landbúnaðarmála og þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið, til lausnar á vandanum.

Fækkun um 90.000 kindur taldar óraunhæfar

Gagnrýni kom fram á fundinum á Landbúnaðarráherra fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við vandanum, en ljóst var strax í mars að það stefndi í óefni í haust og var ráðherra látinn vita af því þá.

Hugmyndir ráðherra um að fækka fé um 20% strax nú í haust féllu í frekar grýttan jarðveg og töldu fundarmenn það útilokað að svo mikil fækkun væri framkvæmanleg, né heldur að vilji væri fyrir því hjá bændum að fækka um 90.000 kindur í einum grænum í haust. Þeir sem til máls tóku töldu þó flestir að fækkun á fé yrði að eiga sér stað og að margir sauðfjárbændur komi til með að fækka fé nú í haust, en fækkunin yrði ekki svona mikil á einu bretti þegar aðkoma ríkisins væri óljós.

Þungt hljóð í bændum

Það var þungt hljóð í mörgum bændum sem tóku til máls og sá þeir fram á mikla tekju skerðingu í haust. Ljóst væri að byggð í sumum héruðum landsins væri undir og fáar atvinnugreinar þyldu 35% lækkun nú, til viðbótar við 10% lækkun árið 2016.

Birgðastaðan óljós – lambakjöt virðist ekki vera fáanlegt í sumum verslunum

Mikil umræða var um það á fundinum hve miklar birgðir væru raunaverulega til af lambakjöti nú í upphafi sláturtíðar hjá sláturleyfishöfum og töldu margir að þær væru ofmetnar. Margir lýstu yfir furðu á því hve erfitt væri að fá áræðanlegar tölur um þetta. Margir lýsti einnig yfir furðu sinni á því að erfitt væri að koma auga á lambakjöt í mörgum verslunum þessa daganna og væri það furðulegt í ljósi umræðunnar um að of mikið væri til af kjöti í landinu nú í upphafi sláturtíðar.

Lágt verð til frambúðar ?

Margir höfðu áhyggjur af því að þessi verð sem væru í boði fyrir kjötið í haust væru komin til með að vera og það tæki mörg á að hýfa þau aftur upp. Vel borgandi markaðir erlendis væru ekki fyrir hendi, gengi krónunnar væri útflutningi óhagstæður og viðskipti við Rússland væri ekki möguleg. Innanlandsmarkaður væri eini markaðurinn sem væri í boði og hann væri yfirfullur um þessar mundir. Það eina sem bændur gætu vonast eftir væri að allur almenningur í landinu færi að borða meira af lambakjöti til að jafnvægi kæmist á. Ef bændur fengu ekki raunhæf verkfæri til að losna við umframkjöt í útflutning á næstu tveimur árum væri þessi lágu verð komin til með að vera.

Bændum allar bjargir bannaðar

Einn bóndi varpaði því fram að það væri auðvitað óbúandi við það að vita ekki afurðaverðið sem greiða ætti fyrir innlegg næsta árs, fyrr en rétt áður en sláturtíð hefst. Bændur þyrftu helst að vita verðið heilu ári fyrr, svo þeir geti gert ráðstafanir í samræmi við það. Sauðfjárbændur væru í þeirri ömulegu stöðu að geta ekkert gert. þeir gætu ekki annað en tekið þeim verðum sem í boði væri hverju sinni. Sauðfjárbændum væri í raun allar bjargir bannaðar.

Vextir ? Byggðastofnun ? Léttari lömb ?

Ýmsum hugmyndum til lausnar á vandamálinu var varpað fram á fundinum, eins og td. að reyna að fá lánastofnanir til þess að innheimta ekki vexti af lánum sauðfjárbænda tímabundið, eða á meðan þetta ástand varir. Hugmynd um að Byggðastofnun komi í lið með sauðfjárbændum með yfirtöku á lánum þeirra og breytingar á skilmálum í kjölfarið var líka varpað fram. Hugmynd um að láta ærnar bera seinna á vorin til að lömbin verði léttari við slátrun og minnka þar með heilarkjötmagnið sem slátrað er að hausti, kom einnig fram.

Niðurtröppun beingreiðslna stöðvuð strax.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum með meginþorra atkvæða.

Ályktun
Fundur sauðfjárbænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum haldinn í Ýdölum, 23.ágúst 2017 lýsir yfir stórfelldum áhyggjum af því neyðarástandi sem framundan er í greininni.  Fundurinn skorar á stjórnvöld, stjórn BÍ og stjórn LS að virkja nú þegar endurskoðunarákvæði sauðfjársamningsins, grein 15.2, með það fyrir augum að stöðva nú þegar niðurtröppun beingreiðslna til bænda á samningstímanum.
Greinargerð:
Umrædd grein samningsins er svohljóðandi:
„Fram að endurskoðun 2019 er stefnt að því að auka útflutningstekjur af sauðfjárrækt sem leiði til þess að hlutur bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar aukist um 7,5% að lágmarki. Þetta miðast við óbreyttan fjárfjölda í landinu og fast verðlag. Takist það ekki skal niðurtröppun beingreiðslna endurskoðuð.“
Miðað við verðfallið 2016 og þær verðskrár sem sláturleyfishafar hafa nú birt fyrir haustslátrun 2017 er ljóst algjört verðhrun afurða og mikill vandi í útflutningi.  Ekki er fyrirsjáanlegur bati í þeim efnum í nánustu framtíð.  Sú staða sem nú er uppi er grafalvarleg og ófyrirséð.  Niðurtröppun beingreiðslna við þær aðstæður sem nú eru uppi mun auka enn á vanda margra bænda.

Þingmaður Norðausturkjördæmis og fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var viðstaddur fundinn og ávarpaði hann bændur. Sigmundur reyndi að stappa stálinu í bændur minnti á það að þeir hefðu meiri stuðning almennings heldur en ætla mætti af umræðunni í sumum fjölmiðlum og taldi að það ætti eftir að koma í ljós þegar frá líður. Aðrir þingmenn kjördæmisins voru ekki á fundinum.

Í Bændablaðinu sem kom út í dag má skoða tillögur að aðgerðum sem miða að því að fé verði fækkað um allt að 20% með því að gefa þeim sem velja að hætta sauðfjárframleiðslu kost á að halda 70% af greiðslum sauðfjársamnings árið 2017 í fjögur ár og greiða sérstakt sláturálag á ær haustið 2017.

Til stóð að halda auka aðalfund Landsamtaka Sauðfjárbænda á morgun föstudag í Reykjavík til að ræða þessar tillögur með ríkisvaldinu, en búið er að fresta þeim fundi þar sem ríkisvaldið hefur ekki náð að klára sína vinnu til lausnar á vandanum.

Samkvæmt heimildum 641.is eru líkur á því að í næstu viku verði ríkisvaldið tilbúið með hugmyndir að aðgerðum og þá í framhaldinu verði hægt að funda með sauðfjárbændum.