Sauðburði vonandi lokið

0
156

Lífið er alltaf að koma okkur á óvart, stundum óþægilega en miklu oftar ánægjulega. Þegar Hjördís Ólafsdóttir ,,helgarbóndi,, á Bjarnastöðum í Bárðardal, kom út í fjárhúsin í gær blasti við henni óvenjuleg sjón, óvenjuleg á þessum árstíma, ærin Nökkva hafði þá borið tveimur lömbum. Nökkva er ein af ánum sem komu í Bjarnastaði úr búi Hjördísar Kristjánsdóttur og Sigurgeirs heitins Sigurðssonar á Lundabrekku. Nökkva hafði ekkert nafn fyrr en í dag. Þegar fréttaritari talaði við Ólaf Ólafsson bónda á Bjarnastöðum sat hann einmitt við fjárbókhald og sagðist vera að færa fé til bókar, þ.e.a.s. það fé sem kom frá Lundarbrekku, og átti hann þá eftir að gefa þessari tilteknu ær nafn, hann vildi fá smá tíma til að velja henni nafn og hringdi svo í fréttaritara þegar það var klárt. Ólafur sagði að auðvitað ætti í raun að gefa henni nafnið Ófeig, því hún átti að fara á sláturhús núna, en hún var steingeld þegar ómskoðað var í mars, “þetta kallar maður að bjarga sér korter í,, sagði Óli og hló. Nökkva fær að hafa lömbin sín hjá sér fram í desember, þá verða þau færð frá henni.

Nökkva með lömbin sín tvö
Nökkva með lömbin sín tvö

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eins og margir vita vinnur Friðrika Sigurgeirsdóttir bóndi á Bjarnastöðum myndir úr þæfðri ull, það verkefni kallar Friðrika, Af kind í mynd. Friðrika notar gamlar aðferðir við ullarvinnsluna og velur af kostgæfni liti í myndirnar sínar. Í Viðtali sem birtist við Friðriku í Morgunblaðinu 2008 segir Friðrika, „Ég nota einkum ull af okkar eigin kindum, þvæ ullina eftir rúning, þurrka hana, tek ofan af, kembi og þæfi. Að því loknu er efnið tilbúið til notkunar en ég nota einungis þelið í myndirnar. Myndefnið er margvíslegt en er mest sótt í íslenska náttúru, bæði dýralíf og landslag. Rjúpur og kindur eru í sérstöku uppáhaldi.” Hér er komin Mynd af kind, sem e.t.v. verður seinna, Af kind í mynd.

Nökkva er 4 vetra.
Nökkva er 4 vetra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndirnar tók  Hjördís Ólafsdóttir.