Sáttatillögu hafnað

0
102

178. fundur sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar var haldinn í dag í Kjarna á Laugum. Fyrir fundinum lá m.a. sáttatillaga til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá Snæbirni Kristjánssyni og fleirum varðandi Litlulaugaskóla í Reykjadal og hljóðar hún svo:

Þingeyjarsveit stærra
„Sveitarstjórn skuldbindur sig til að endurskoða á næstu tveimur árum fyrirkomulag reksturs grunnskóla í sveitarfélaginu. Við þá endurskoðun verði m.a. tekið tillit til eftirfarandi þátta:
Þróun barnafjölda í einstökum sveitarhlutum.
Mögulegum tengslum grunnskólans við Framhaldsskólann á Laugum.
Möguleikum á nýtingu þeirra íþrótta- og tómstundaaðstöðu sem fyrir hendi er á Laugum.
Möguleikum á samnýtingu skólaakstur fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.
Mati á rekstrarkostnaði eins skóla af hagkvæmri stærð, samanborið við rekstur tveggja skóla í stóru og viðhaldsfreku húsnæði. Í framhaldi af þessari endurskoðun og opinni umræðu við íbúa um skólamál verði mörkuð stefna til framtíðar í skólamálum sveitarfélagsins.“

Undir sáttatillöguna skrifa þau, Freydís Anna Arngrímsdóttir, Ari Teitsson, Sigurlaug Svavarsdóttir, Friðgeir Sigtryggsson, Konráð Erlendsson, Kári Steingrímsson, Ingi Tryggvason og Snæbjörn Kristjánsson.

 

Oddviti Þingeyjarsveitar lagði fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn þakkar erindið og bendir á að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skólahaldi í sveitarfélaginu frá síðustu sveitarstjórnakosningum byggja á kosningastefnu A-listans sem birt var fyrir kosningar og er því framtíðarstefna sveitarfélagsins í skólamálum.
Hún hlýtur alltaf að taka mið af þróun barnafjölda í sveitarfélaginu.
Í henni er horft til tengsla grunnskólans við Framhaldsskólann á Laugum.
Í henni er horft til notkunar íþrótta-og tómstundaaðstöðu sem fyrir hendi er á Laugum.
Sveitarstjórn er reiðubúin til að skoða möguleika á samnýtingu skólaaksturs fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.
Það er stefna sveitarstjórnar að frekari breytingar á skipulagi skólahalds í sveitarfélaginu þjóni ekki heildarhagsmunum íbúa og telur óeðlilegt að hún skuldbindi sig til að hverfa frá markaðri stefnu nú á fyrri hluta kjörtímabils og vandséð hvaða sátt er fólgin í því. Sveitarstjórn hafnar því erindinu.

 
Tillaga oddvita var samþykkt með með fimm atkvæðum fulltúra A-lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa T-lista.

Fulltrúar T-lista lögðu þá fram eftirfarandi bókun:

 

Það er skoðun T-lista að samþykkja eigi og skrifa undir sáttartillögu þá sem fyrir liggur enda er það skoðun T-lista að raunveruleg framtíðarstefna í skólamálum Þingeyjarsveitar sé varla fyrir hendi.

 

Sjá fundargerð 178. fundar hér