Það var þungt hljóðið í lögreglumönnum frá Húsavík og Akureyri sem efndu til samstöðufundar við Goðafoss í dag. Efnt var til fundarins til að sýna samstöðu í kjaradeilunni við ríkið. Lögreglumenn eru í erfiðri stöðu, án verkfallsréttar á meðan aðrir hópar geta knúið á með verkfallsaðgerðum í sínum kjaradeilum.

Meðal þeirra aðgerða sem lögreglumenn, sem eru orðnir langeygir eftir kjarabótum hafa gripið til, er að draga úr hraðasektum og sekta einungis fyrir mjög alvarleg brot á hámarkshraða. Þeir munu þó verða sýnilegir í umferðinni og aðvara bílstjóra ef þeir aka yfir leyfðum hámarkshraða.
Þeir munu sinna útköllum en munu ekki leggja mikla áherslu á frumkvæðisvinnu á lögreglustöðvunum á meðan á kjaradeilunni stendur.
Á samstöðufundinum við Goðafoss í dag var lesin upp eftirfarandi ályktum sem var samþykkt með lófataki.
Sameiginlegur samstöðufundur Lögreglufélags Þingeyinga (LÞ) og Lögreglufélags Eyjafjarðar (LFE ) haldinn við Goðafoss þann 15.10. 2015 sendir frá sér eftirfarandi ályktun.
LÞ og LFE skora á stjórnvöld að semja strax við Landssamband lögreglumanna á þeim nótum sem við aðra hefur verið samið. Lögreglumenn hafa dregist mjög aftur úr í launum þar sem ríkisvaldið virðist ekki hafa haft áhuga að semja við lögreglumenn um kaup og kjör undanfarin ár. Þá skora félögin á Alþingi að veita lögreglumönnum verkfallsrétt að nýju.
Félögin vilja lýsa yfir stuðningi við SFR og SLFÍ í þeirri launabaráttu sem félögin standa í og hvetja samninganefndir félagana til að hvika hvergi frá uppsettum kröfum um bætt launakjör.
Fyrir hönd LÞ og LFE. Jóakim Júlíusson formaður LÞ.
Meðfylgjandi myndir tók tíðindamaður 641.is við Goðafoss í dag.




Aðalsteinn Júlíusson lögregluþjónn á Húsavík samdi meðfylgjandi samstöðulag sem hægt er að hlusta á með því að smella á “play”