Samgönguminjasafnið Ystafelli tvítugt

0
231

Samgönguminjasafnið Ystafelli hélt upp á 20 ára afmælið sitt 11. júlí síðastliðinn með pompi og pragt.  Sverrir Ingólfsson hefur rekið safnið frá upphafi með aðstoð Diddu eiginkonu sinnar, fjölskyldu og annarra vina og vandamanna.

Dodge sem Ingólfur átti frá 1940 og kom með norður.

Ingólfur Kristjánsson var fæddur og uppalinn í Reykjavík. En í seinna stríðinu kom ung kona, Kristbjörg Jónsdóttir, alltaf kölluð Bibba, heimasætan á Ystafelli, suður til að vinna við saumaskap. Þau Ingólfur kynnast og giftast og flytja norður 1946.

Mustang sem Sverrir hefur átt í 37 ár.

Í upphafi rak Ingólfur bifreiðaverkstæði ásamt búskap. Bibba hefur sennilega sinnt búskapnum meira en þau hættu honum 1988. Ingólfur vann í bílum og viðgerðum fram á síðustu stund. Hann safnaði ekki sérstaklega bílum en þeir söfnuðust að honum. Í byrjun var þessi efniviður hugsaður sem varahlutir en er nú sá grunnur sem safnið byggir á.

Á safninu kennir ýmissa grasa. Þeim var t.d. gefnir þessir leikfangabílar sem eigandinn hafði átt í 70 ár.

Undir aldamótin síðustu kom upp sú hugmynd að reisa safn utan um bílana og var safnið opnað fyrir almenning 2000.

Bíll Ingimars Eydals. Stundum var öll hljómsveitin flutt á þessum bíl.

Síðan eru nú liðin 20 ár og segir Sverrir að þessi tími hafi verið ævintýri líkastur og fljótur að líða. Safnið hefur notið mikils velvilja, því hafi verið gefnir bílar og fólk komið og aðstoðað.

Framtíðin.

Nú er svo komið að safnið er orðið smekkfullt og þarf Sverrir að hafna bílum. Vonir standa til að byggja meira og fengu þau teikningar að gjöf í tvítugsafmælinu.

Thunderbird sem Sverrir og Didda rúntuðu á í Reykjavík á sokkabandsárunum.

Í sumar hefur aðsókn á safnið aukist til muna og eru daglega 60-80 gestir á safninu. Sverrir gerir lítið annað en taka á móti gestum og bíða frekari bílaviðgerðir haustsins.

 

Mekka viðgerðanna. Hér gerast töfrarnir.
Leikfangabílar sem Hafliði Jónsson, sonur Jóns verkstjóra átti.
Sverrir og Didda.

 

Ljósmyndir: Gunnar Marteinsson.