Bakkastakkur slhf. hefur undirritað samkomulag við PCC SE um þátttöku í fjármögnun á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá PCC BakkiSilicon hf. Eigendur Bakkastakks eru á annar tugur lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka. Frá þessu er sagt á mbl.is

Samkvæmt tilkynningunni hefur verkefnið verið fullfjármagnað en heildarfjárfesting vegna verksmiðjunnar nemur um 300 milljónum dollara eða á fjórða tug milljarða króna. Verkefnið er fjármagnað að stórum hluta með erlendu lánsfé frá leiðandi þýskum banka.
Fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið. Fjármögnunin er háð ýmsum skilyrðum.
„Stjórn Bakkastakks og PCC SE lýsa yfir ánægju með áfangann en þetta er fyrsta verkefnafjármögnun af þessari stærðargráðu með þátttöku erlends banka á Íslandi um langt skeið. Framkvæmdin styður atvinnuuppbyggingu á Íslandi en búast má við að hún skapi um 120 störf. Þá hentar fjárfestingin lífeyrissjóðunum vel þar sem endurgreiðsla hennar er til langs tíma í erlendum gjaldmiðlum og dreifir þannig áhættu í eignasöfnum þeirra,“ segir í tilkynningunni. (mbl.is)