Sagnakortið – Nýr vefur opnaði í dag

0
198

Í dag opnaði formlega vefurinn Sagnakortið sem er samansafn fróðleiks og gagna sem ætlað er að varpa ljósi á lífið í Suður-Þingeyjarsýslu fyrr á öldum. Notast er við gagnvirkt kort til að birta efnið og er áherslan lögð á byggðina og fólkið sem þar bjó. Sagnakortið var unnið af Trausta Dagssyni frá Breiðanesi í Reykjadal, meistaranema í Hagnýtri þjóðfræði. 

Sagnakortið. Notendur smella á einhvern bæ og fá þá upp það efni sem til er um viðkomandi bæ. Skjáskot af vefnum.
Sagnakortið. Notendur smella á einhvern bæ og fá þá upp það efni sem til er um viðkomandi bæ. Skjáskot af vefnum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stafræn gögn um menningu Íslendinga eru til víða og sameinar þessi vefsíða ólík gögn. Efnið gefur því mynd af byggðinni á svæðinu, lífi fólksins sem þar bjó og þjóðtrú fyrri alda. Hægt er að smella á bæina á kortinu og sjá hverjir bjuggu þar á hverjum tíma og eins hvaða sögur og hljóðupptökur eru tengdar þeim.

Þróun byggðar

Með gögnum úr manntölum frá 1703 og 19. öld er hægt að draga fram mynd af því hvernig byggð þróaðist í sýslunni. Með því að færa sleðann efst á kortinu má sjá hvaða bæir voru í byggð á hverjum tíma og með því að smella á bæina má sjá hverjir bjuggu á þeim. Manntalsupplýsingar eru fengnar af vefnum Manntal.is sem er á vegum Þjóðskjalasafns Íslands.

Þjóðsögur

Á kortinu má finna valdar þjóðsögur úr söfnum Jóns Árnasonar, Sigfúsar Sigfússonar og Odds Björnssonar sem tengjast bæjunum. Með því að smella á bæina má sjá sögurnar sem tengjast þeim.

Hljóðupptökur

Við bæina hafa verið tengdar bútar úr viðtölum sem tekin voru við íbúa sýslunnar upp úr miðri 20. öld. Þar má heyra kveðskap, sögur og lýsingar á lífinu um aldamótin 1900. Segulbandasafn Stofnunar Árna Magnússonar og Ísmús.is hafa góðfúslega veitt leyfi til notkunar á hljóðupptökum þeirra.

Verkefnið hefur verið stutt af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum,Þingeyjarsveit og Urðarbrunni. Einnig fær Bjarki Hallórsson frá Byrgisholti í Aðaldal þakkir fyrir veitta aðstoð.

Sagnakort.net