Safnakvöld í Þingeyjarsýslum

0
138

Þingeyingar eru ríkir af söfnum og sýningum sem gera sögu, menningu og náttúru svæðisins skil á fjölbreyttan hátt. Safnaþing er samstarfsvettvangur þessara safna og sýninga. Nú þegar sumri tekur að halla taka aðilar í Safnaþingi sig saman og bjóða heim eina kvöldstund. Safnakvöldið verður föstudaginn 22. ágúst, þá verða 14 söfn og sýningar opin frá 20-22, boðið er upp á fjölbreytta dagskrá og frítt er inn á allar sýningar.

Danshópurinn Vefarinn við Grenjaðarstað.
Danshópurinn Vefarinn við Grenjaðarstað.

Tvær nýjar sýningar hafa verið opnaðar í Þingeyjarsýslum á þessu ári, annars vegar Fræðasetur um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði og hins vegar Könnunarsögusafnið  á Húsavík. Þessar tvær sýningar eru einstaklega góð viðbót við þá sýningaflóru sem fyrir er.

Á dagskrá safnakvölds eru fyrirlestrar sem tengjast viðfangsefnum sýninganna, tónlistarviðburðir, myndasýningar og margt fleira skemmtilegt og fróðlegt. Gestir geta m.a. valið milli þess að heimsækja torfbæi í kvöldrökkrinu og taka þátt í fjörugu barsvari á bókasafni.

 

Söfnin og sýningarnar eru vítt og breitt um Þingeyjarsýslur, allt frá Sauðaneshúsi á Langanesi að Gamla barnaskólanum á Skógum í Fnjóskadal. Úr mörgu er að velja og vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi. Heimboði safnanna er fyrir alla, heimamenn, þeirra gesti  og aðra ferðamenn. Þingeyingar eru sérstaklega hvattir til að taka kvöldið frá og tileinka það sögu og menningu í heimabyggð. Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á www.husmus.is