Rysjótt tíðarfar

0
85

Eins og flestum mun vera kunnugt kom veturinn óvenju snemma þetta haustið, helltist yfir okkur strax í september. Síðan þá verður ekki annað sagt en tíðarfarið hafi verið heldur rysjótt og til mikilla óþæginda fyrir daglegt líf, a.m.k. þeirra sem fullorðnir eru. Frá þessu er sagt á vef Stórutjarnaskóla.

Við Stórutjarnaskóla í dag.
Mynd: Jónas Reynir Helgason

Í dag rekur á hryðjur hér í kringum skólann, snjórinn þyrlast upp og hleðst upp í harða skafla. Afar vont er að bera sig um, stundum þarf að vaða snjóinn í klof og svo stendur maður á öndinni þegar kófið er sem mest og lokar fyrir öll vit. Aðalveginum er þó haldið opnum, þó víða geti verið erfið færð á útvegum.

 

Flestir komust í skólann í morgun og komast vonandi heim með eðlilegum hætti síðar í dag. – Annars er snjórinn gleðiefni barnanna þó hinir fullorðnu kunni síður að meta návist hans. Skaflarnir eru ágætur vettvangur leikja og kófið er spennandi leikfélagi kraftmikilla krakka sem eru vel búinir til útivistar. Þannig setur fjölbreytileiki náttúruaflanna mark sitt á líf okkar mannanna, jafnt með jákvæðum hætti og neikvæðum.