Roðagyllum heiminn – bindum enda á ofbeldi gegn konum

0
43

Þann 25. nóvember 2020, á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi hefst átakið ,,Roðagyllum heiminn” og því lýkur þann 10. desember en sá dagur er tileinkaður alþjóðlegum mannréttindum og er jafnframt alþjóðadagur Soroptimista. Átaksverkefnið lýtur að því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum víðsvegar um heiminn.

Soroptimistar eru samtök kvenna vítt og breitt um veröldina og eitt af markmiðum þeirra er að vinna að bættri stöðu kvenna. Það gera samtökin á margvíslegan máta, bæði með beinni aðkomu að ákveðnum verkefnum sem og að vekja athygli á því sem þarfnast úrbóta í málefnum kvenna. Það samræmist vel markmiðum okkar Soroptimista að taka þátt í vitundarvakningu um nauðsyn þess að binda enda á ofbeldi gegn konum og tökum við heilshugar þátt í að roðagylla heiminn þessa 16 daga til að vekja athygli á málstaðnum.

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis hvetur einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í Þingeyjarsýslum til að leggja málefninu lið með roðagullinni lýsingu þessa daga og vekja þannig athygli á þessu brýna verkefni.

Fulltrúar klúbbsins munu nk. miðvikudag, 25. 11. 2020, tendra roðagullin ljós við Húsavíkurkirkju og e.t.v. víðar. Vegna samkomutakmarkana er okkur ekki kleift að standa fyrir opinberum viðburði í tengslum við átakið að þessu sinni en erindi ,,ræðumanna” okkar munu birtast í Vikublaðinu 26. 11. nk.

Samkvæmt nýlegum fréttum hefur Kórónuveirufaraldurinn orðið til þess að ofbeldi gegn konum hefur aukist út um allan heim.

Tökum þátt í að roðagylla heiminn til að minna okkur og aðra á nauðsyn þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis