Réttað í Víðikersrétt síðdegis

0
157

Austurafrétt Bárðdælinga var smöluð um helgina og er smalafólk og fénaður væntalegt síðdegis í dag að Víðikersrétt þar sem réttað verður án tafar. Bændum sem áttu fé á austurafréttinni var ráðlagt að flýta göngum vegna mögulegra flóða og öskufalls úr Vatnajökli og var lagt af stað í göngurnar sl. föstudagskvöld. Gangnafólk fékk sérstakt leyfi frá sýslumanni Þingeyinga til þess að fara inn á lokað svæði og smala fénu heimleiðis.

Hlaðið á Bjarnastöðum 15 september sl. Mynd: Friðrika Sigurgeirsdóttir.
Hlaðið á Bjarnastöðum 15 september 2012
Mynd: Friðrika Sigurgeirsdóttir.

“Þetta er farið að verða dálítið þreytandi”, sagði Friðrika Sigurgeirsdóttir bóndi á Bjarnastöðum í Bárðardal í spjalli við 641.is í dag. Þetta er annað haustið í röð þar sem flýta þarf göngum hjá mörgum bændum í Þingeyjarsýslu og taka þarf fé inn á tún mun fyrr en í venjulegu árferði. Í fyrra var göngum flýtt vegna slæmrar veðurspár, sem gekk svo ekki eftir og nú vegna mögulegs öskufalls og flóðahættu úr Vatnajökli. Septemberóveðrið 2012 setti svo allt úr skoðrum hjá mögrum bændum í sýslunni og þetta er því þriðja haustið í röð sem göngur og réttir hjá mörgum bændum í Þingeyjarsýslu riðlast. Nú þegar hafa bændur við Öxarfjörð sótt sitt fé og amk. hluti af afrétt Mývetninga hefur verið smöluð.

 

Ekki er búið að smala vesturafrétt Bárðdælinga og eru göngur þar áætlaðar 3-6. september. Að sögn Vagns Sigtryggsonar bónda í Hriflu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort göngum verði flýtt á vesturafréttinni, vegna mögulegra afleiðinga hugsanlegra umbrota í Vatnajökli.

 

Uppfært kl 20:20. Búið er að ákveða að flýta göngum á vesturafrétt Bárðdælda og leggja gangnamenn í hann í fyrramálið.