Rekstrarniðurstaða Þingeyjarsveitar neikvæð um 50 milljónir

0
83

Á 190. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 28. apríl, var ársreikningur Þingeyjarsveitar 2015 lagður fram til fyrri umræðu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 50,1 millj.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 23,2 millj.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Á heildina litið er neikvætt frávik frá áætlun 26,9 millj.kr. í samanteknum ársreikningi A og B hluta.

Þingeyjarsveit stórt

Í fundargerð 190. fundar segir að frávikið skýrist af lægri útsvarstekjum og hærri launum og launatengdum gjöldum en áætlað var. Veltufé til rekstrar er 10,2 millj.kr. og handbært fé frá rekstri 71,2 millj.kr. Heildarskuldir eru 577 millj.kr. og skuldahlutfall – skuldir/rekstrartekjur A og B hluta er 62,4%.

 

Á 191 fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 12. maí, var ársreikningur Þingeyjarsveitar 2015 lagður fram til seinni umræðu og var hann samþykktur með fimm atkvæðum fulltrúa A-lista. Fulltrúar T-lista sátu hjá.

Fulltrúar T-lista lögðu fram eftirfarandi bókun á fundinum:

„Ársreikningur Þingeyjarsveitar endurspeglar misgáfulegar ákvarðanir meirihluta sveitarstjórnar og því sitja fulltrúar T-lista hjá við afgreiðslu ársreiknings ársins 2015.“

Fulltrúar A-lista lögðu fram eftirfarandi bókuná fundinum:

„Í ársreiknings 2015 vógu launaleiðréttingar og launahækkanir þung líkt og hjá öðrum sveitarfélögum enda ár mikilla launahækkana. Einnig var farið í umfangsmiklar skipulagsbreytingar í skólamálum. Þessar launaleiðréttingar og kostnaður vegna skipulagsbreytinga vega þyngst í niðurstöðu ársreiknings 2015 en hafa ber í huga að um einskiptiskostnað er að ræða og skipulagsbreytingar sem munu skila hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Annar rekstrarkostnaður var 25,6 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir og aðhalds því gætt í rekstri.“