Rauð viðvörun gefin út fyrir Norðurland Eystra

0
146

Veðurstofan hefur gefið út rauða viðvörun fyrir Norðurland Eystra frá kl. 16 í dag. Norðan ofsaveður og jafnvel fárviðri gengur nú yfir á þessu svæði, 25-33 m/s, með mikilli snjókomu og skafrenningi. Víðtækar samgöngutruflanir verða viðvarandi og líkur eru á tjóni og/eða slysum. Ekkert ferðaveður er á svæðinu. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Ekkert skólahald verður í Þingeyjarskóla né Stórutjarnaskóla á morgun miðvikudag vegna veðurs.

Á facebooksíðu Landsnets segir að tjón sé á Kópaskerslínu og verður ekki farið í viðgerðir á meðan veður stendur yfir. Húsavíkulína 1 er einnig biluð. Húsavík fær rafmagn frá Þeistarreykjum. Bilun er á Laxárlínu 1, sem tengir saman tengivirkið við Laxá og Rangárvelli við Akureyri og er hún úr rekstri. Akureyri fær nú eingöngu rafmagn frá Kröflulínu 1, sem tengir Rangárvelli við Kröfluvirkjun.