Ræktar býflugur í Mývatnssveit

0
112

„Fjallahunang frá Mývatnssveit, blómi íslenskrar náttúru,“ eru einkunnarorð Ólafs Þrastar Stefánssonar sem hefur nú í tæplega tvö ár ræktað býflugur í Vogahrauni í Mývatnssveit. „Ég kynntist býflugnaræktun þegar ég var við nám í Danmörku kringum 1990 og átti mér draum um að rækta hunangsbýflugur á Íslandi. Svo kynntist ég félögum í Bý, Félagi býflugnaræktenda á Íslandi, fyrir fjórum árum og fór á námskeið hjá þeim í ræktun og framleiðslu hunangs. Keypti mín fyrstu bú í júní 2011 og það gengur mjög vel með þau,“ segir Ólafur þegar blaðamaður forvitnaðist um verkefnið hjá honum. Frá þessu er sagt á akureyrivikublad.is

Uppskeran 2012
Uppskeran 2012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirtæki Ólafs heitir Fjallahunang og sem stendur er hann með tvö bú og uppskeran haustið 2012 var tuttugu kíló af hunangi. „Reynslan er góð og sömuleiðis viðtökur og áhugi þeirra sem vita af þessum sjaldséða búskap hátt til fjalla á norðlægum slóðum,“ segir Ólafur og bætir því við að mikil tækifæri felist í að nýta gæði jarðarinnar Voga í Mývatnssveit til býflugnaræktunar. „Þar er aðgangur að skógivöxnu hrauni og ríkulegu blómlendi sem er gjöfult af hunangssafa.“

Til Mývatnssveitar koma tæplega þrjúhundruðþúsund ferðamenn árlega og fer þeim fjölgandi. „Þarna er tækifæri til að framleiða og selja lífrænt hunang í smáum skömmtum til ferðamanna. Magn framleiðslunnar verður takmarkað, varan einstök og mikil krafa um gæði á öllum stigum framleiðslunnar, svo framleiðslan er hágæða hunang framleitt í hreinni náttúru“.

Nú leitar Ólafur að háskólanema til starfa í sumar því hann hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða nema í  hönnun umbúða, markaðsefnis og gerð markaðsáætlunar fyrir hunangið. Auk þess þarf að rannsaka vöruna, innihaldsgreina hana og bera saman við algenga tegund fjöldaframleidds hunangs. Upplýsingarnar verða nýttar til að renna sterkari stoðum undir sérstöðu fyrirtækisins Fjallahunangs í Mývatnssveit.

Viðkomandi þarf að starfa að hluta eða að öllu leiti í Mývatnssveit. „Þetta er spennandi verkefni í fjallasalnum fagra,“ segir Ólafur og bendir á að viðkomandi muni auk þess kynnast ræktun á býflugum og framleiðslu á hunangi.

Þeir sem hafa áhuga á starfinu geta haft samband við Ólaf í síma 894-3433 og á póstfangið oli@sagatravel.is.

akv.is