Framboðslistar Pírata í öllum sex kjördæmum landsins eru tilbúnir og hafa verið lagðir fram. Þar með er spennandi og lærdómsríku prófkjörsferli lokið og búið að manna bátana. Það er því ekki eftir neinu að bíða með að ýta kosningarbaráttunni úr vör sem verður bæði áhugaverð og óhefðbundin.
Jafnt kynjahlutfall í oddvitasætum
Listarnir eru fjölbreyttir og endurspegla breiddina í mannlífinu vel. Eftir að niðurstaðan varð endanlega ljós í Norðvesturkjördæmi fékkst sú niðurstaða að konur og karlar skipta oddvitasætunum jafnt á milli sín og erum við stolt af því. Á listunum má finna fulltrúa allra landsmanna og ánægjulegt að sjá hvað Píratar eru fjölbreyttir þó sameinaðir séu undir grunnstefnunni.
Virðing og gleði í kosningabaráttunni
Við erum bjartsýn á framhaldið og teljum okkur hafa góðan og sannfærandi valkost fyrir kjósendur í öllum kjördæmum. Við ætlum að fara í þennan leiðangur með virðingu fyrir öllu fólki að leiðarljósi, bæði hinum almenna kjósanda og svo auðvitað væntanlegu samstarfsfólki okkar úr öðrum flokkum.
Hópfjármögnuð kosningabarátta og öflugir sjálfboðaliðar
Öll þessi vinna er fjármögnuð með frjálsum framlögum í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolinafund sem heldur utan um söfnunina fyrir kosningarbaráttuna. Hún er nauðsynleg ef við ætlum okkur að geta komið stefnumálum okkar á framfæri og vinna gott kynningarstarf. Á sama tíma hittast sjálfboðaliðar reglulega í Tortuga, höfuðstöðvum Pírata við Fiskislóð sem og um allt land, og sinna gríðarlega mikilvægu hlutverki.
Stefnumótunarvinnu og framtíðarsýn
Verið er að leggja lokahönd á framtíðarsýn og stefnumótun flokksins og verður sú vinna kynnt af frambjóðendum okkar innan skamms en einnig verða frambjóðendurnir sjálfir kynntir til sögunnar.
Við hlökkum til að kynna Pírata og okkar stefnumál fyrir kjósendum og höldum sameinuð af stað í þessa skemmtilegu vegferð.