Prófkjör hjá Sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi

0
59

Á fjölmennu kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um nýliðna helgi, var ákveðið að efna til prófkjörs við val frambjóðenda á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2013.

Við lok fundar var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
Stjórnmálaályktun kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í NA- kjördæmi.
Frelsi einstaklingsins og lífsgæði íbúanna eru grundvallaratriði í hverju samfélagi. Forsenda bættra lífskjara er heilbrigt atvinnulíf sem er undirstaða hagvaxtar og framfara í hverju landi. Atvinnulífið er sú aflvél sem knýr mennta- og velferðarkerfið sem miklar og sjálfsagðar kröfur eru gerðar til. Því miður gengur sú vél ekki á fullum afköstum. Starfsemi íslenskra fyrirtækja og rekstur heimilanna í landinu beið mikinn skaða við fall bankakerfisins og starfshættir sitjandi ríkisstjórnar hafa aukið á þann vanda sem við er að etja. Skattaálögur á einstaklinga og fyrirtæki og sífelld átök stjórnvalda við undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar hafa leitt til þess að tekjustofnar ríkissjóðs hafa dregist saman, skuldir hins opinbera aukist og máttinn dregið úr efnahagsstarfseminni.

Nýja framfarasókn er unnt að hefja bæði hratt og vel. Virkja þarf framtakssemi einstaklinga og fyrirtækja til aukinnar verðmætasköpunar til að standa undir bættum lífskjörum og velferð landsmanna. Íslendingar hafa vilja og burði til þess að blása aftur lífi í atvinnustarfsemi um allt land. Með góðu samstarfi og gagnkvæmu trausti stjórnvalda, samtaka verkafólks og atvinnurekenda er hægt að rjúfa kyrrstöðu og fjötra forræðishyggju sem atvinnulífið hefur verið hneppt í.

Í Norðausturkjördæmi eru miklar auðlindir fólgnar í landsgæðum og fólki. Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins krefst þess að atvinnumál verði sett í forgang með þeim hætti að stuðlað verði að aukinni fjárfestingu í öllum helstu atvinnugreinum kjördæmisins og þess verði sérstaklega gætt að styrkja stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Stjórnvöld eiga skilyrðislaust að gefa öllum þeim sem kjósa sér búsetu í þessu kjördæmi tækifæranna, frelsi til að nýta þau gæði sem hér eru, Íslandi öllu til hagsbóta.

Sjálfstæðisflokkurinn í NA kjördæmi fagnar upphafi framkvæmda Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun í Mývatnssveit. “Þegjandi samkomulag” ríkisstjórnarflokkanna gegn framkvæmdum við orkuvinnslu á Íslandi hefur loksins verið rofið. Einnig þarf að ryðja úr vegi sem fyrst öðrum þeim hindrunum sem standa í vegi iðnaðaruppbyggingar á Bakka við Húsavík. (Fréttatilkynning)