Predikun séra Bolla í Þorgeirskirkju á jóladag.

0
81

Gleðileg jól.

“Yður er í dag frelsari fæddur.”

Ég hlusta helst á útvarp í bílnum mínum þegar ég er á ferðinni, sem er ósjaldan og vegalengdir prestakallsins eru víst talsverðar þannig að þá hef ég líka tíma. Nú á aðventunni var ég á ferð heim að loknu aðventukvöldi í Þorgeirskirkju og þá voru menn að spjalla í útvarpinu. Viðmælandinn í þættinum var Spessi nokkur Hallbjörnsson ljósmyndari með eftirlætis tónlistina sína og svo spjall á milli.

Tónlistin var í stíl við hann svolítið töff, kántrí, rokk og ról og mótorhjól. Hann var síðan inntur eftir jólunum. Og með gæjalegri útvarpsröddu á síðkvöldi sagðist hann kunna vel við jólin og að hann liti á þau sem góða æfingu fyrir mannkyn í því að sýna gæsku og náungakærleik. En þannig ætti það einmitt að vera allt árið um kring, ekki bara á jólum, bætti hann við.

Eftir að hafa boðið upp á lagið Born to be Wild með Steppenwolf var hann að ræða um þessa hátíð ljóss og friðar og honum tókst að koma því að, sem mér fannst alveg ljómandi að heyra, að tíminn þegar hátíðin gengi í garð á aðfangadagskvöldi væri eitthvað alveg sérstakur, honum fylgdi sérstök stemmning og það væri eins og friður færðist yfir, enda hafa menn meira að segja leyft sér þann munað að leggja niður vopn á vígvöllum.

Það var sérkennilega skemmtilegt að hlusta á þetta spjall í útvarpinu,því einhvern veginn virkaði týpa og töffararödd Spessa á mig í hrópandi ósamræmi við það sem frá honum kom um jólahátíðina, en svona er líka hægt að dæma fyrirfram út frá röddinni einni án þess að þekkja annars nokkuð til, það er svo fáránlegt að ákveða eitthvað um manneskjur, enda eftir á var ég ekki hissa á honum Spessa, heldur einkum sjálfum mér.

Ég er alveg hjartanlega sammála þessu með að jólin séu og eiga að vera góð æfing fyrir mannkyn, góð áminning og það er mín trú að þau séu það. Ég segi fyrir mig að hluti af þessari æfingu er að kynna sér hlutina t.d. um sögu jólanna bæði í heiðnu samhengi sem trúarlegu og þar með kristnu.

Það er sömuleiðis staðföst trú mín að nýfætt barn í Betlehem, sem fékk ekki pláss neinsstaðar í Davíðsbænum forðum, nema í gripahúsi, var vafið reifum og lagt í jötu hafi sterkari áhrif á þessa gæskuæfingu jólanna en okkur grunar. Eðli málsins samkvæmt ætti hvítvoðungur er fæðist við hrörlegar aðstæður að bræða hjörtu okkar allra og gera okkur að betri manneskjum.Kannski ættum við að lesa jólaguðspjallið allt árið um kring í kirkjunum.

En svo fullorðnaðist þetta barn, óx úr grasi og boðaði trú á lífið og Guð og friðinn og gagnrýndi um leið hið veraldlega vald, stríðsbrölt og hverskonar misrétti í garð alþýðunnar. Fyrir það allt saman stóðu honum allar dyr opnar og það beina leið upp á krossinn, þar fékk hann sitt pláss.

Saga þessi dýpkar nú talsvert sögu jólanna, sem verður eitthvað annað og meira en fögnuður yfir gangi náttúrunnar er sól fer hækkandi, þó ég sé ekki að gera lítið úr því. Án þess að ég sé að tengja fyrrnefndan Spessa nokkuð við hinn kristna boðskap jólanna, enda var hann ekki beint að fjalla um hann í annars notalegum útvarpsþætti, þá gríp ég engu að síður þennan ágæta æfingarþráð hans og minni á hvað Betlehemsfrásögnin getur gefið honum mikilvæga vængi og verið gríðarlega mikilvæg áminning um það hvert við erum að fara í samfélagi okkar og hvort við séum búin að loka öllum dyrum á jólabarnið nema þeim er opna leið upp á krossinn.

Eru umræður um réttindi, fyrirframgefnar hugmyndir um hinn kristna boðskap, skoðanir okkar á kirkjustofnun og þjónum hennar, fyrirframgefnar skoðanir á manneskjum, kröfur um staðreyndir og sannindi Betlehemsatburðar og Kristssögunnar og fleira í þeim dúr farið að hefta hugi og hjörtu gagnvart jólahátíðinni sem þessum kjörna æfingatíma í gæsku og náungakærleik, tekst okkur ekki einu sinni að leggja niður vopnin á friðarhátíð ljóssins og lífsins?

Ýmsir hrópa hærra en áður að fyrrnefndur boðskapur rugli ungviðið og sé því óhollur, tortryggni liggur í loftinu og hið veraldlega vafstur í aðdraganda jóla getur virkað sem þægileg undankomuleið frá allri þeirri umræðu út á hvað jólin raunverulega ganga.

Eitt af tortryggnishugtökum fyrir þessi jól var orðið innræting. Það er hugtak sem í sjálfu sér fjallar ekki um annað en að hugfesta eitthvað með einhverjum eða kenna náunganum eitthvað trúarlegt eða siðferðislegt og talað er t.d. um að vera vel innrættur eða illa innrættur. Og einhvern veginn finnst mér eins og þetta hugtak hafi fengið á sig þann skilning og stimpil, að með því sé verið að berja á fólki m.a. með Biblíunni, heilaþvo það, troða hinu trúarlega í það án vilja þess sem er ekkert annað en ofbeldi eins og við vitum.

Heimsóknir barna í kirkjur núna fyrir jólin voru gerðar tortryggilegar t.a.m. með þessu hugtaki og talið að þjónar kirkjunnar hefðu ekki skynsemi til að bera til að forðast svokallaða innrætingu og kynnu ekki að halda sig við það eitt að fræða.

Þar fyrir utan hefur þetta samstarf kirkju og skóla verið sett í afar skýran farveg hjá mannréttindaráði Reykjavíkurborgar með ljósum reglum og ferðirnar gerðar á forsendum skólanna og í samráði við foreldra. Það var því að mínu mati með öllu óþarft þetta uppþot á annars vonarríkri aðventu.

Þó er það líka þannig að börn sem mega alls ekki fara í þessar ferðir vegna þess að það samræmist ekki lífsafstöðu foreldranna, verða að gera eitthvað annað á meðan. Í því ljósi er bent á mismunun og krafan því einkum sú að fella alfarið niður þessar heimsóknir, sem eru hluti af uppábrotsflóru skólanna fyrir jól. Þá spyrja sig sumir hver sé réttur þeirra barna sem mega fara í þessar heimsóknir.

Auðvitað erum við hin fullorðnu farin að flækja hlutina það mikið að við þorum ekki lengur orðið að opna dyr heldur ríghöldum í húna og þá verða það einkum börnin er lenda á milli stafs og hurðar. Þessar flækjur eru jafnframt tilkomnar vegna vantrausts manna og hópa á milli er sprettur einmitt af þeirri tilfinningu, sem ég var að lýsa hér í upphafi, að stundum höldum við eitthvað annað um aðra sem á sér enga stoð, en afhjúpar aðeins okkar eigin dóma.

Ætli það sé ekki að einhverju leyti þess vegna sem það er ekki verið að setja sig inn í málin og vanþekking því staðreynd í garð þeirrar starfssemi, sem ýmsar stofnanir í samfélaginu inna af hendi m.a. skólar og kirkjur? Þetta mega vera ástæður fyrir því hvers vegna sumir eru ekki alveg að njóta æfingatímans fyrrnefnda sem jólin eru og loka þess vegna dyrum á jólabarnið, en halda þeim fremur opnum upp á krossinn.

Viljum við hafa það þannig? Skal barnið í Betlehem hverfa úr menningu okkar eða viljum við hafa það áfram? Það er reyndar ekki einhverra hópa að ákveða það, slík ákvörðun þarf að gerast í hjarta sérhverrar manneskju. Kirkjan ákveður t.d. ekkert fyrir þig í dag, þó svo að til séu dramatískar sögur innan hennar af misviturri valdsmennsku í kirkjusögunni almenningi til afar takmarkaðrar blessunar.

Nú á tímum stendur kirkjan þér alltént opin, hún reynir að falla ekki í sama pyttinn og gistihúsaeigendur í Betlehem forðum. Hún býður upp á tilfinningalegt rými, samtal, trú, lifandi boðskap, æfingatíma fyrir gæsku og náungakærleik. Kirkjan minnir okkur á að elska okkur sjálf og aðra og það ekki bara á jólunum. Allt árið er hún að minna á það.

Hún er sjálf vanmáttug í mörgu, en býður upp á leið auðmýktarinnar til að sigrast á erfiðleikum og þar komum við aftur að komu Guðs í þennan heim sem fátæka barnið í gripahúsinu í Betlehem er óx upp, var dæmt á krossinn og fór þá leið án þess að mögla, og í auðmýkt sinni var það upphafið.

Og þegar maður veltir þessari sögu fyrir sér og er reiðubúinn að opna allar dyr, en ákveður ekki í eitt skipti fyrir öll hvert þetta barn er, þá uppgötvast svo margir fletir, sem ekki var hægt að gera sér grein fyrir áður og sem einhvern veginn tala á nýjan og annan hátt inn í þroska manns og aðra og nýja lífsreynslu.

Og þess vegna fannst mér líka svo umhugsunarvert að heyra þetta um æfingatímann hans Spessa, því lífið er yfir höfuð æfing. Okkur er ætlað að æfa okkur í hinu og þessu. Það er m.a. stöðugt verið að hamra á líkamsæfingum, boðskapur sem undirrituður á sennilegast hvað erfiðast með að meðtaka, æfingatíminn þarf án nokkurs vafa á þolinmæði, opnu hugarfari og samskiptalagni að halda til þess að allar dyr opnist vel Guði til dýrðar og mannfólki til blessunar.

Guð gefi að við göngum í því ljósi inn í þessa jólahátíð og inn í nýtt ár, sem knýr á í Jesú nafni. Amen.

séra Bolli Pétur Bollason.

Þorgeirskirkja