Póstdreifingardögum fækkað – Landpóstum sagt upp störfum

0
159

Í september á síðasta ári gaf innanríkisráðuneytið út breytingu á reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. Meðal breytinga sem reglugerðin tekur til er póstdreifing á svæðum þar sem kostnaður er hlutfallslega hár, en þar er heimilt að fækka dreifingardögum í annan hvern virkan dag og mun sú breyting taka gildi þann 1. mars næstkomandi. Í reglugerðinni (nr. 868/2015) segir meðal annars:

Pósturinn-logo-300x204

„Á dreifbýlissvæðum, þar sem kostnaður við dreifingu er þrefaldur eða meiri miðað við sams konar kostnað í þéttbýli, er rekstrarleyfishafa heimilt að fækka dreifingardögum í annan hvern virkan dag. Rekstrarleyfishafi skal senda Póstog fjarskiptastofnun tilkynningu þess efnis með rökstuddri greinargerð um kostnað. Stofnunin skal yfirfara og staðreyna útreikninga rekstrarleyfishafa og eftir atvikum hafna eða samþykkja umsókn, innan þriggja mánaða.“

„Jafnframt getur rekstrarleyfishafi sent Póst- og fjarskiptastofnun rökstudda umsókn um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., ef hann metur kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður þannig að útburður pósts alla virka daga sé verulegum erfiðleikum bundinn á tilteknum landsvæðum.“

Íslandspóstur hefur sent Póst- og fjarskiptastofnun tilkynningu og rökstudda greinargerð um fækkun dreifingardaga á svæðum, þar sem kostnaður er hlutfallslega hár, og hefur stofnunin heimilað breytinguna. Eftir að breytingin tekur gildi verður dreifing alla virka daga vikunnar til um 95% landsmanna.

 

641.is sendi fyrirspurn til Brynjars Smára Rúnarssonar hjá Íslandspósti í vikunni og spurðist fyrir um hvaða breytingar yrðu á póstdreifingu í Þingeyjarsýslu og hve mörgum verktökum (landpóstum) hefði verið sagt upp störfum.

Í svari hans kom fram að alls var sagt upp samningum við 37 verktaka víðsvegar um landið með boð um endursamning á breyttum forsendum. Breytingarnar taka til svæða þar sem kostnaður er þrefaldur eða meiri miðað við sams konar dreifingu í þéttbýli, eins og kemur fram hér að ofan.

Að sögn Brynjars liggur ekki fyrir hvernig dreifikerfið verður í Þingeyjarsýslu á þessum tímapunkti, en það liggur fyrir að pósti verði dreift á þessi póstdreifingarsvæði þrjá daga aðra vikuna og tvo daga hina vikuna, til skiptis.

Aðspurður um hvort stæði til að loka póstafgreiðslunni á Laugum í framhaldinu sagði Brynjar að á þessum tímapunkti stæði ekki til að breyta því. Hins vegar er rekstur pósthúsa og póstafgreiðsla um allt land í sífelldri endurskoðun og mun halda áfram að taka breytingum á komandi árum.