Penninn hefur keypt Bókaverslun Þórarins Stefánssonar á Húsavík

0
346

Penninn hefur keypt rekstur Bókaverslunar Þórarins Stefánssonar á Húsavík af Friðriki Sigurðssyni og Magneu Magnúsdóttur. Í tilkynningu segir að samtímis kaupi félag tengt Pennanum fasteign Bókaverslunarinnar að Garðarsbraut 9. Bókaverslun Þórarins Stefánsson var stofnuð árið 1909 og þar hafa óslitið síðan verið seldar bækur, ritföng og gjafavara og síðar einnig raftæki og minjagripir.

Mynd: 640.is
Mynd: 640.is

Við höfum staðið vaktina í Bókaverslun Þórarins í rúm 15 ár, fyrst með foreldrum Friðriks og síðar tvö ásamt góðu starfsfólki.  Okkur fannst tími til kominn að breyta til á þessum tímapunkti,“ segja Friðrik Sigurðsson og Magnea Magnúsdóttir.

Húsvíkingar og nærsveitungar hafa reynst afar traustir viðskiptavinir alla tíð og erum við þakklát fyrir það. Það er ánægjulegt að Penninn skuli vera tilbúinn að taka við keflinu af okkur þar sem vöru- og þjónustuframboð í þeirra verslunum er að mörgu leyti líkt og í Bókaverslun Þórarins.

Við óskum Pennanum allra heilla á komandi árum – enda eru nú spennandi tímar framundan á Húsavík og nágrenni.” 

„Við hjá Pennanum erum afar ánægð með að taka við Bókaverslun Þórarins á Húsavík. Þar er til staðar áralöng saga viðskipta með bækur, ritföng og gjafavöru sem við munum byggja okkar rekstur á. Mikið er framundan á næstu árum á Húsavík og í Þingeyjarsýslum. Starfsfólk Pennans er stolt af því að vera með 8 starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins, þar af 7 verslanir og vöruhús á Keflavíkurflugvelli,” segir Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans.

Penninn rekur nú 15 verslanir undir nafni Pennans/Eymundsson á landinu. Þar af 9 á höfuðborgarsvæðinu en einnig eru verslanir á Akranesi, Akureyri, Ísafirði, Keflavík, Keflavíkurflugvelli og Vestmannaeyjum. Húsavík verður því sjöunda verslunin utan höfuðborgarsvæðisins. Penninn áformar að reka verslun undir sínu nafni í húsnæðinu að Garðarsbraut 9.