PCC BakkiSilicon heldur opinn fund fyrir nágranna 25. janúar

0
297

Um leið og nýtt ár gengur í garð vill PCC BakkiSilicon þakka Húsvíkingum og öðrum nágrönnum velvild þeirra og samvinnu á liðnu ári. Á árinu 2018 mun fyrirtækið leggja sig fram við að viðhalda og hlúa að því góða sambandi á meðan á gangsetningu stendur og eftir að fyrirtækið er komið í fullan rekstur.

Óhætt er að segja að árið 2017 hafi verið viðburðaríkt hjá PCC BakkiSilicon. Í ársbyrjun unnu átta starfsmenn hjá fyrirtækinu en nú ári seinna erum við yfir hundrað. Ráðning og þjálfun nýrra starfsmanna ásamt undirbúningi gangsetningar kísilversins hefur verið stórt viðfangsefni en nú samanstendur fyrirtækið af dyggum starfsmönnum sem eru tilbúnir að takast á við uppkeyrslu og gangsetningu verksmiðjunnar. Vonir stóðu til að hægt yrði að hefja gangsetningarferlið fyrir áramót en það gekk ekki eftir og stefnt er að gangsetningu í byrjun árs.

Gangsetningin verður mikil áskorun fyrir starfsfólk PCC BakkiSilicon en því til halds og trausts verður hópur sérfræðinga með langa reynslu af gangsetningu og rekstri kísilvera. Það eru meginmarkmið PCC BakkiSilicon að enginn slasist í gangsetningarferlinu, umhverfisáhrif verði sem minnst og að nágrannar verði ekki fyrir óþægindum. Þegar rekstur kísilversins er orðinn stöðugur ættu íbúar í nágrenninu að verða sem minnst varir við daglega starfsemi þess.

PCC BakkiSilicon mun halda opinn fund fimmtudaginn 25. janúar nk. Á fundinum verður fjallað um gangsetningarferlið og hvers Húsvíkingar og aðrir nágrannar kísilversins geta vænst á meðan á því stendur. Þá gefst fundargestum tækifæri til þess að bera fram spurningar og ræða málin. PCC BakkiSilicon vonar að sem flestir sjái sér fært að mæta á fundinn.