Páfinn og Þingeyjarsveit

0
227

Í páfabréfi sínu um umhverfismál sem gert var opinbert fyrir rúmri viku segir Frans páfi að Jörðin okkar, þitt eina heimili, sé farin að líkjast ógnarstórri hrúgu af skít og viðbjóði. Á hverju ári sé hundruðum milljónum tonna af sorpi og úrgangi dælt út í náttúruna eins og að við séum ómeðvituð um að við sjálf séum hluti af þessari náttúru, nærumst af gjöfum hennar og lifum í henni.

Sindri Geir Óskarsson
Sindri Geir Óskarsson

Frans gagnrýnir hvað neyslumenning okkar sem pakkar öllu í einnota umbúðum sé óumhverfisvæn, við framleiðum einfaldlega of mikið af rusli. Náttúran kann að vinna úr sínum úrgangi og það þekkja bændur sem nýta skítinn sem áburð. Sá úrgangur sem við mannfólkið skilum út í náttúruna, urðum, dælum í sjóinn eða brennum hefur allt önnur áhrif, mengar og drepur. Við getum þó reynt að herma eftir hringrásarferli náttúrunnar, fullnýtt vörur og gefið áfram í stað þess að henda heillegum hlutum, ekki notað einnota hluti, reynt að kaupa vörur sem ekki er pakkað í óþarfa umbúðir og síðast en ekki síst, flokkað og endurunnið sorpið okkar.

Bréfinu hans Frans er m.a. ætlað að hvetja fólk til að líta aðeins í eigin barm og hugsa hvað það geti gert. Það er einfalt að hugsa, „ég er nú bara einn einstaklingur, það skiptir ekki máli hvað ég geri“ og við föllum mörg, ef ekki öll í að hugsa á þá leið. Það er nefnilega töluvert vesen að axla þá ábyrgð sem hvílir á þér vegna þess sjálfskapaða umhverfisvanda sem við erum komin í. Margir bíða eftir tæknilausnum, að hlutum sé bara reddað svo að þú þurfir ekki að breyta þinni neyslu eða lífsstíl. Slík tæknilausn, ef hún berst væri þó aðeins plástur á opið beinbrot. Eins og að byggja eitt eldhelt herbergi í brennandi húsi, þeir sem komast inn í herbergið gætu lifað af eða dáið úr súrefnisleysi en húsið mun samt brenna til grunna og allt og allir sem í því voru.

Frans segir að þörf sé á hugarfarsbreytingu hvað neyslu okkar varðar og bendir á að neyslan sé slík að jörðin búi ekki yfir nægum auðlyndum til að standa undir henni til frambúðar. Reyndar er það svo að fáar þjóðir ná að koma tánum þar sem við Íslendingar höfum hælana í óábyrgri neyslu. Ef að allir jarðarbúar lifðu eins og við þyrfti fleiri en fjórar jarðir árlega til að standa undir þeirri neyslu. Þá dugir ekki einfeldningsleg von um að einn daginn muni einhver redda þér. Ég og þú þurfum sjálf að taka ábyrgð á okkar málum, gera það litla sem við getum og gera það saman.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir að verið sé að vinna að því að sorp verði flokkað í Þingeyjarsveit.  Það er eiginlega skammalegt að flokkun sé ekki hafin, sú skömm á alls ekki aðeins heima hjá kjörnum fulltrúum sveitafélagsins heldur líka hjá mér sjálfum og öðrum íbúum, sem ekki hafa reynt að berjast fyrir því að sorpmálum verði komið i ábyrgari farveg. Einstaka heimili leggja sig fram við að flokka pappa og keyra inn á Akureyri eða búa svo vel að geta hent lífræna úrgangnum í skíthúsið eða til hænsnanna en ég þori að fullyrða að lang flest heimili í sveitarfélaginu henda öllu flokkanlegu rusli í almenna sorpið, endar er varla annað í boði. Verðmætin sem felast í flokkun sorps eru líklega ekki mælanleg í peningum, öllu heldur í framtíðar lífsgæðum okkar sem samfélags. Enda er töluverður sannleikur í þeim orðum að daginn sem síðasta tréð verði fellt í nafni gróða munum við komast að því að við getum ekki andað að okkur peningum.

Kæra sveitarstjórn, þið hafið átt stormasaman vetur í skólamálunum, ég vona að á komandi vetri náið þið að klára endurvinnslumálin.

Með kærri þökk fyrir ykkar góðu störf.
Sindri Geir Óskarsson.
Meistaranemi í guðfræðilegri umhverfissiðfræði.