Óvissa um dýralæknisþjónustu í Þingeyjarsýslum

0
301

Þann 31. oktober sl. rann út þjónustusamningur Matvælastofnunar(MAST) við Vigni Sigurólason dýralækni á Húsavík um almenna dýralæknisþjónustu í Þingeyjarumdæmi sem hafði verið í gildi sl. þrjú ár. Matvælastofnun auglýsti í haust eftir dýralækni til að taka að sér þessa þjónustu og sótti Vignir um nýjan þjónustusamning. MAST bauð honum þá nýjan þjónustusamning, en gegn 50 % lægri þóknun en verið hafði, og 50 % lægra en á öðrum þjónustusvæðum.  Vignir hafnaði þessu boði.  Síðan er MAST í tvígang búin að auglýsa eftir dýralækni til að taka að sér þessa þjónustu, en enginn hefur sóst eftir því og því er enginn dýralæknir sem ábyrgist að dýralæknisþjónusta sé ávallt í boði í Þingeyjarsýslu.

Vignir Sigurólason
Vignir Sigurólason

 

Í spjalli við 641.is í gær sagði Vignir það ekki koma til greina að taka á sig þessa skuldbindingu og ábyrgjast þessa þjónustu fyrir helmingi lægri þóknun en MAST býður á öðrum þjónustusvæðum. “Það dettur engum dýralækni í hug að taka þessu boði fyrir helmingi lægri upphæð en dýralæknum á öðrum svæðum er boðið upp á”, sagði Vignir.

 

 

 

 

Aðspurður um hvers vegna þjónustusamningurinn sem boðinn hefði verið fyrir áhugasama dýralækna í Þingeyjarumdæmi væri helmingi lægri en annarsstaðar, sagði Vignir að MAST hafi ákveðið að búa til nýtt þjónustusvæði á norðausturhorni landsins þ.e. í Vopnafirði, Langanesbyggð og Þistilfirði og gert þjónustusamning við dýralækni sem búsett er í Vopnafirði um að þjónusta þetta nýja svæði. Til að fjármagna 100 % þóknun á þessu nýja svæði ákvað MAST að skerða þóknun á Þingeyjarsvæði og Austurlandssvæði um 50 % á hvoru svæði, sem varð til þess að engin dýralæknir sækist eftir þjónustusamningi á þessum tveimur svæðum. Þetta gerir MAST einhliða þrátt fyrir að það sé lögum samkvæmt í verkahring Landbúnaðarráðherra, í samráði við Dýralæknafélag Ísl., Bændasamtökin, Samtök sveitafélaga og MAST, að ákveða hvernig landið skiptist í þjónustusvæði.

Í dag er fyrirhugaður fundur yfirdýralæknis og hérðasdýralæknis, með dýralæknum á svæðinu um ástand mála og vonaðist Vignir til að einhver lausn finndist á vandanum.

Ef listi yfir vatkhafandi dýralækna, sem birtur er á vef Matvælastofnunnar er skoðaður, sést að enginn dýralæknir er á vakt í Þingeyjarsýslu frá klukkan 8:00 á morgnanna fram til kl 17:00 á daginn nú í desembermánuði. Mánudaginn 22. desember er enginn dýralæknir á vakt yfir höfuð og þriðjudaginn 23. desember er heldur enginn dýralæknir á vakt í Þingeyjarsýslu. Daganna 31. desember til 5. janúar 2015 er heldur ekki neinn dýralæknir á vakt í Þingeyjarsýlsu.

Bændur í Þingeyjarsýslu hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og vaxa þær eftir því sem lausn á málinu dregst á langinn.

Þess má geta að vakthafandi dýralæknir í Þingeyjarsýlsu núna er Sylvía Windmann sem búsett er í Vopnafirði.

Vakthafandi dýralæknar í Þingeyjarumdæmi