Ótrúleg könnun – 175 þúsund kall á spurningu

0
92

Könnun félagsvísindastofnunar um skólamál í Þingeyjarsveit er hafin, en margir fengu upphringingu nú í kvöld frá Félagsvísindastofnun. Könnunin olli fólki miklum vonbrigðum ef marka má viðbrögð margra íbúa í Þingeyjarsveit á facebook nú í kvöld. Margir eru á því að könnunin hafi verið ómerkileg, tilgangslítil og kjánaleg því ekki hafi verið spurt út í hluti sem skipta raunverulega máli. Viðmælendur þurftu aðeins að svara fjórum spurningum og þar af aðeins tveimur um skólamál.

félagsvísindastofnun

Önnur þeirra gekk út á það að vita hvort viðmælandinn byggi á skólasvæði Þingeyjarskóla eða Stórutjarnaskóla, en hin var um hvort viðmælendinn vildu að Þingeyjarskóli yrði starfræktur á einni starfsstöð eða á tveimur. Vakti það sérstaklega athygli að ekki var spurt um hvora starfsstöðina fólk vildi ferkar að Þingeyjarskóli yrði starfræktur á. Þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem ótvíræður vilji hefur komið fram hjá íbúum á skólasvæði Þingeyjarskóla um að skólinn verði starfræktur á einni starfsstöð en ekki tveimur eins og nú er og var það staðfest í skýrslunum sem kynntar voru um daginn á íbúafundi í Ýdölum. Það hefði því átt að vera óþarft að spyrja að þessu í könnuninni. Það kom einnig skýrt fram á fundinum að það væri ekki valkostur í stöðunni að starfrækja Þingeyjarskóla á tveim starfsstöðvum áfram.

Hinar tvær spurningar voru um mögulegan kostnað vegna ljósleiðaralagningu í Þingeyjarsveit. Var önnur þeirra um hversu líklegt eða ólíklegt væri að viðkomandi heimili tæki inn ljósleiðara ef kostnaðurinn yrði 250 þúsund krónur eða 200 þúsund krónur á heimili. Munurinn á þessum tveimur spurningum er aðeins 50 þúsund krónur sem er mjög lítill munur og varla ástæða til að skipta um skoðun vegna þess kostnaðar.

Margir velta því fyrir sér hvort þetta hafi bara verið grín hjá félagsvísindastofnun og alvöru skoðanakönnun eigi eftir að fara fram einhvern næstu daga. Fram hefur komið að könnunin kostaði 700 þúsund krónur og því kostar hver spurning 175 þúsund krónur og finnst fólki þeim peningum illa varið ef marka má ummæli á facebook nú í kvöld.