Öryggi fólks er ógnað

0
98

Stórfelldur niðurskurður hefur orðið á velferðar- og heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni, deildum sjúkrahúsa hefur verið lokað og starfsfólki sagt upp störfum. Hinir sem þó héldu vinnunni finna fyrir auknu álagi. Margir sjúklingar hafa vegna þessa þurft að sækja heilbrigðisþjónustu um allt of langan veg og alvarleg veikindi þola enga bið. Það er hart að þurfa að benda á að þetta snýst um líf eða dauða.

Anna Kolbrún Árnadóttir

Þetta gerist á sama tíma og uppi er áform um að reisa risavaxna byggingu undir Landsspítala, á sama tíma og fólk getur ekki fengið lögbundna grunnþjónustu í heimabyggð og á sama tíma fást ekki læknar til starfa á landsbyggðinni.

Sú stefna hefur verið ráðandi í byggðamálum á Íslandi að viðhalda eigi byggð alls staðar á landinu en almenn umræða sýnir að þessi stefna hefur beðið skipbrot. Ef halda á byggð um allt land verður að sjá til þess að samgöngur séu í lagi, nú hefur vegurinn um Víkurskarð verið ófær í 18 daga það sem af er vetri og sú staðreynd ógnar öryggi íbúa.

 

Segja má að Víkurskarð sé nauðsynleg lífæð á milli landshluta og skelfileg tilhugsun að vita til þess að vegurinn sé lokaður vegna ófærðar eða veðurs ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir. Hafa verður í huga að vegurinn er eina tenging Þingeyinga til þess að sækja heilbrigðisþjónustu bæði sérfræði- og bráða þjónustu.

Björgunarsveitir hafa oftar en ekki komið til hjálpar þegar fólk hefur ekki getað komist leiðar sinnar, eða jafnvel þegar það hefur misst bíla sína útaf veginum vegna hálku og ófærðar. Vegurinn um Víkurskarð er hættulegur, sérstaklega að vetrarlagi.

Öryggi fólks er ógnað.

Anna Kolbrún Árnadóttir, býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.