Opin fyrirspurn til A-lista Samstöðu

0
74

Þar sem mér þykir margt benda til þess að Samstaða ætli sér ekki að bjóða upp á neinn opinn íbúafund um stefnu sína sé ég mig knúinn til þess að leggja fram fyrirspurnir á þennan hátt og óska ég eftir því að þeim verði svarað fyrir kosningar.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 1. Samstaða hyggst (nái hún meirihluta í sveitarstjórn), í kjölfar íbúakosninga á skólasvæði Þingeyjarskóla, taka ákvörðun um það hvort Þingeyjarskóli flytjist allur á Hafralæk eða Lauga (kjósi íbúarnir að hann verði á einni starfstöð). Ákvörðun sína ætlar Samstaða að taka með hagkvæmni að leiðarljósi út frá mati á faglegum, fjárhagslegum og félagslegum þáttum.
  1. Hver mun framkvæma matið sem þarf að fara fram?
  2. Verður það unnið samhliða því mati sem á að fara fram fyrir íbúakosningarnar og á að tryggja að íbúarnir taki sem upplýstasta ákvörðun eða ekki fyrr en eftir íbúakosningarnar?
  3. Hvers vegna fá íbúarnir ekki að kjósa út frá því mati sem Samstaða hyggst síðan taka ákvörðun sína út frá, þ.e. að fá uppgefið staðsetninguna sem er hagkvæmari áður en þeir kjósa?
  4. Hvers vegna hyggst Samstaða etja íbúum saman í kosningu um viðkvæmt mál fyrst hún er reiðubúin að taka erfiða ákvörðun um málið byggða á greinargerð sérfræðinga ef þátttaka í íbúakosningunni nær ekki 50%?
  5. Af hverju, fyrst hægt er að fá slíka greinargerð, lét núverandi meirihluti ekki gera það áður en hann tók ákvörðun um sameiningu skólanna fyrir tveimur árum og tók ákvörðun þá byggða á slíku mati?
 2. Hvers vegna telur Samstaða að leikskóli einn og sér án grunnskóla (á Hafralæk eða Laugum í framtíðinni fari grunnskóladeildir Þingeyjarskóla báðar undir eitt þak á hinum staðnum) sé ekki fámenn og veik eining en að sameiginlegur leik- og grunnskóli fyrir t.d. 1.-7. bekk sé það?
  1. Er það álit Samstöðu að fámenn eining sé alltaf veik eining eða eru bara sumar fámennar einingar veikar?
  2. Hvað gerist svona stórkostlegt í þroska barna við sex ára aldur sem gerir það að verkum að skóli fyrir 1-5 ára er nærþjónusta en fyrir 6 ára og eldri hugsanlega ekki?
 3. Samstaða greinir frá væntingum um fjölgun íbúa á skólasvæði Stórutjarnaskóla með tilkomu Vaðlaheiðarganga og er það talið upp sem ein af ástæðum þess að ekki kemur til greina að samreka skólann með öðrum skólum sveitarfélagsins. Þetta vekur hjá mér nokkrar spurningar.
  1. Á Þingeyarsveit, eða hyggst Samstaða láta Þingeyjarsveit kaupa, land á skólasvæði Stórutjarnaskóla til þess að skipuleggja íbúabyggð og stýra með því hvar byggð eflist eða treystir Samstaða á tilviljunarkennda jákvæða þróun í kjölfar gangnanna drifna áfram af landeigendum á svæði Stórutjarnaskóla eingöngu?
  2. Hvar er að finna skýrslur um afleiðingar á tilkomu Vaðlaheiðagangna sem boða fjölgun íbúa á skólasvæði Stórutjarnaskóla umfram fjölgun á skólasvæði Hafralækjarskóla eða Litlulaugaskóla?
  3. Segja skýrslur og reynslan annars staðar frá að aldurssamsetning þeirra sem væntanlegt er að flytji inn á skólasvæði Stórutjarnaskóla sé þannig að börn á grunnskólaaldri verði mörg í þeim hópi?
  4. Hvar má finna dæmi þess frá nágrannalöndum okkar þar sem jarðgöng hafa þau áhrif sem gefið er í skyn að Vaðlaheiðagöng muni hafa á skólasvæði Stórutjarnaskóla umfram hin?
  5. Hefði væntanleg uppbygging á Þeystareykjum og Bakka, sem nú er að verða að veruleika, ekki átt að fría Hafralækjaskóla á sama hátt frá þeim breytingum sem búið er að fara í líkt og Vaðlaheiðagöng virðast gera, í augum Samstöðu, með Stórutjarnaskóla?

 

Með von um skýr og greinargóð svör sem geta hjálpað mér þegar kemur að því að taka upplýsta og skynsama ákvörðun í kjörklefanum þann 31. maí nk.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson, Hjalla.