Laugardaginn 13.október var opið hús í Torfunesi frá kl. 13:00 til 17:00.
Þar var starfsemi ræktunarbúsins kynnt, og folöld, tryppi og söluhross til sýnis. Fólki gafst kostur á að skoða bæði aðstöðuna á staðnum sem og þau hross sem inni voru, sem voru all mörg. Veglegar veitingar voru fyrir gesti, enda gestrisni alltaf verið mikil í Torfunesi.
Þórdís Anna Gylfadóttir kennari á Hólum, var á staðnum og kynnti námskeið sem hún hefur hug á að vera með fyrir áramót.
Í lok dags var Mette Mannseth með sýnikennslu í tamningu og byrjunarþjálfun. Hún var á Musku frá Torfunesi sem hún á helmings hlut í, á móti Torfunesi ehf. Muska er 6 vetra, undan Gíjari frá Auðsholtshjáleigu og Mánadís frá Torfunesi. Muska er myndar hross, hefur hlotið 8.02 í kynbótadómi og verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni, Mette mun keppa á henni í vetur. Metta er yfirkennari á Hólum og hefur verið faglegur ráðgjafi í Torfunesi í um 10 og 12 ár. Gísli Gíslason tamningamaður, sambýlismaður Mette hefur einnig komið mikið að tamningum og ráðgjöf fyrir Torfunesbúið.
Mette, Muska, Baldvin Kristinn og Þórdís Anna.
Helgina 19. til 21. október er stefnt að frumtamninganámskeiði með Þorsteini Björnssyni kennara á Hólum.
Helgarnar 2. til 4. nóvember, 23. til 25. nóvember og 14. til 16.desember verður námskeið þar sem boðið er upp á knapamerki 1 og 2 og stöðupróf í þeim, þar kennir Þórdís Anna Gylfadóttir. En einnig verður möguleiki á ýmiskonar námskeiðum hjá henni – eitthvað fyrir alla.
1. desember verður Metta með framhaldssýnikennslu í Torfunesi og þá helgi verður einnig sölusýning á tömdum hrossum og tryppum.
Að síðustu er áætlað námskeið helgina 7. til 9. desember með Artemisiu Bertus, með möguleika á einkatímum.
Baldvin Kristinn vonar að sem flestir nýti sér þessi námskeið, hjá þessum frábæru kennurum.