Opið bréf til Lilju Bjarkar

0
184

Mig langar til að byrja á því að svara þeirri vangaveltu þinni um hvort það geti verið að þú sért karlremba. Ég held nú ekki en aftur á móti gæti ég trúað því og finnst reyndar ansi augljóst að þú sért að misskilja.  Mig langar að reyna að útskýra þetta fyrir þér um leið og ég segi þér að ég samgleðst þér innilega fyrir að upplifa samfélagið okkar sem algjört jafnréttissamfélag fyrir alla hópa. Það hlýtur að vera gleðileg upplifun. Þó raunveruleikinn sé síðan allt annar.

Hanna Þórsteinsdóttir.
Hanna Þórsteinsdóttir.

Ég ætla ekki að svara þeirri fullyrðingu þinni um að svartir og hvítir hafi jafna möguleika því þá baráttu þekki ég síður en ég vona að einhver taki að sér að fræða okkur hin sem minna vitum. Um mögulegt jafnrétti og  ójafnrétti veit ég hins vegar margt.

 

 

Ég ætla að því byrja á að rekja ofan í þig þá staðreyndar villu að möguleikar karla og kvenna séu jafnir. Það er hægt að gera á ótal vegu.

Það er til bók sem heitir “Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri” og er eftir Lizu Marklund og Lottu Snickare. Þetta er ákaflega merkileg bók þar sem þær stöllur rekja ólíka stöðu kynjanna frá fæðingu og allt til vinnumarkaðar með sérstaka áherslu á konur í viðskiptalífinu en þær reka sig ítrekað á glervegginn. Ég mæli með því að þú lesir bókina því hún er ákaflega skemmtileg og fræðandi.

Í bókinni kemur fram skýr og greinilegur munur á því hvernig við komum fram við stúlkubörn annars vegar og drengjabörn hins vegar, allt frá fæðingu. Það sem stendur upp úr lestri bókarinnar fyrir mína parta er tvennt; Annars vegar var það rannsókn sem gerð var á gráti ungabarns. Hópur fólks var látinn hlusta á barnsgrát og helmingur hópsins hélt að barnið væri stúlka en hinn helmingurinn hélt að barnið væri drengur. Þau áttu síðan að útskýra ástæður grátsins. Hópurinn sem hélt að barnið væri stúlka sagði að hún hlyti að vera leið. Hópurinn sem hélt að barnið væri drengur sagði hann reiðann. Í mínum huga algjörlega skýr og mjög greinilegur munur á viðhorfum sem ákvarðast aðeins út frá kyni barnsins, engu öðru. Og þá er spurning hvort slík viðhorf hljóti ekki að yfirfærast inn í heim fullorðinna. Konur eru mýkri og karlmenn harðari. Konur jafnvel þá verr í stakk búnar til að takast á við hörð verkefni eins og stjórnmál til dæmis og þá karlmenn ekki jafn góðir í mýkri hliðum lífsins eins og barnauppeldi til dæmis. Ég neita að trúa því að það sé raunveruleiki sem aðeins megi útskýra með ólíkri getu heldur verði útskýrður með úreltum viðhorfum okkar.

Þá var það rannsókn, sem ætti að styðja kenninguna mína um yfirfærslu í heim fullorðinna, þar sem hópur fólks las blaðagrein. Helmingurinn hélt að greinin væri eftir konu og hinn hópurinn hélt að greinin væri eftir karlmann. Hópurinn sem las greinina eftir konuna fannst hún illa skrifuð, leiðinleg og þar fram eftir götunum á meðan hópurinn sem las sömu grein, nema hélt hún væri eftir karlmann fannst hún hnyttin, vel skrifuð og svo framvegis. Aftur áfkaflega skýr munur sem ákvarðast aðeins út frá kyni höfundar, engu öðru.

Bara þetta tvennt hlýtur að sýna okkur að viðhorf okkar til kynjanna eru ólík.

Tökum fleiri dæmi um ójafna stöðu kynjanna úr okkar raunveruleika:

-Óútskýrður launamunur kynjanna er talsverður hér á landi eða um 18% . Talsverður munur myndi ég segja í jafnréttisríki eins og þú sérð það.  Ég bendi á að hér er ég að tala um óútskýrðan launamun. Munurinn er talsvert meiri þegar ekki er búið að setja hinar ýmsustu breytur inn í jöfnuna. (http://www.jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=Page3&ID=44)

-Kynbundið ofbeldi. Í könnun frá árinu 2010 kemur í ljós að 42% kvenna á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Talsvert há tala í fullkomu jafnrétti finnst þér ekki? (http://eldri.reykjavik.is/en/desktopdefault.aspx/tabid-4561/7901_view-5009/)

-Konur sækja sér frekar háskólamenntun en skila sér síður í stjórnunarstöður á vinnumarkaðnum. Útskýringin gæti auðvitað verið sú að konur trani sér ekki fram sbr. þína útskýringu á því af hverju konan fékk ekki afgreiðslu á dekkjaverkstæðinu. Ég reyndar trúi ekki slíkum útskýringum. Það er mun dýpra á því en það.(http://www.hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=881)

-Það er ekki jafnrétti inni á heimilum landsins. Konur sinna heimilisverkum frekar en karlmenn og vinnudagurinn þeirra þegar heimilisverkum er bætt ofan á vinnutímann utan heimilis er lengri svo um munar. Þetta sýna íslenskar rannsóknir.  (Þóra Kristín Þórsdóttir hefur til dæmis skoðað þetta http://www.youtube.com/watch?v=0glnsdY0uwY)

Svona gæti ég haldið endlaust áfram. Við gætum talað um útlitsdýrkun, konur í poppheiminum, konur í kvikmyndum, konur í hljómsveitum, konur í stjórnmálum og þá til dæmis konur í ríkisstjórn þessa lands og konur í ráðherrastólum, prófkjör sjálfstæðisflokksins í borginni, stúlkur sem fá minni athygli en drengir í skólanum sínum, leikfangaval fullorðinna handa börnum, fótboltakonur sem fá síður viðurkenningar (til dæmis í formi peninga) en fótboltakarlmenn, fleiri dæmi má finna í íþróttaheiminum og jafnvel í barnastarfi íþróttafélaganna. Við getum talað um klám, vændi og strippstaði. Listinn er ótæmandi.

Sumt af þessu myndir þú jafnvel skrifa á óframfærni kvenna. Ég hef bara meiri trú á konum en svo að ég geti samþykkt slíkar kenningar.

Ég held að fæstar konur líti á sig sem einhver sérstök fórnarlömb. Og fæstar sömuleiðis sem horfa þannig á heiminn að allir karlmenn séu alvondir. Það má samt kalla karla til ábyrgðar. Það má hvetja þá til að fara í gegnum viðhorf sín  og framferði með okkur konunum og vekja máls á því að ójafnréttið er sameiginlegt vandamál og þar af leiðandi sameiginlegt verkenfi okkar að leysa.

Það er ekki jafnrétti á Íslandi. Og ég tel það skaðlegt að skrifa jafnréttisbaráttuna á fórnarlambshugsunarhátt. Konur láta ekki vaða yfir sig. Það lætur enginn vaða yfir sig.

Í mínum huga er þetta ákaflega einfalt mál. Við komum ólíkt fram við börn þessa lands eftir því hvort kynið um ræðir. Við komum ólíkt fram við fullorðna eftir kyni. Þetta er spurning um viðhorf. Viðhorf sem eru svo djúpt í sálarlífi samfélagsins að það mun taka langan tíma að fletta ofan af þeim og ég gæti best trúað því að það verði það sem erfiðast verði að leiðrétta í baráttunni fyrir fullkomnu jafnrétti. Jú, við höfum það skrambi ágætt með tilliti til jafnréttismála á Íslandi en baráttunni er ekki lokið. En hún er ekki væl, eða sjálfsvorkunn eða neitt slíkt, hún er bara barátta fyrir jafnari stöðu.

Ég er algjörlega sammála þér um að við viljum jafnrétti en ekki forréttindi og þess vegna finnst mér gott að geta glatt þig með því að við erum ennþá að vinna í því að rétta hlut stúlkna og kvenna og eigum nokkur verkefni enn óleyst. Svo það er langt í að við þurfum að hafa áhyggjur af því að konur taki við því hlutverki að verða forréttindahópur. Byrjum á þessu með jafnréttið og svo geta barnabörnin okkar og jafnvel börnin okkar (ég leyfi mér að vera bjartsýn) passað upp á að viðhalda því.

Bestu kveðjur, Hanna Þórsteinsdóttir, ættuð úr Vallakoti í Þingeyjarsveit en nú húsmóðir í Vesturbæ Reykjavíkur.

 Pistill Lilju Bjarkar.