Opið bréf til Íslendinga

0
1400

Ég er búin að vera að lesa í gegnum allskonar greinar núna síðastliðna daga sem allar eiga það sameiginlegt að lýsa því hvað konur eiga nú óskaplega bágt. Við erum endalaus fórnarlömb hinna vondu karlmanna sem níðast á okkur við hvert tækifæri. Ég horfi í kringum mig og ég get ekki séð að þetta sé heimurinn sem allavega ég bý í. Ég neita að samþykkja það að vera fórnarlamb. Ég veit ekkert verra en það ef ég finn vorkunn frá einhverjum og ég skil ekki þetta hugarfar hjá þessum konum sem skrifa sumar af þessum greinum. Það er klárt að konur og karlar eru ekki eins. Það er búið að ræða það í hörgul og að mér sýnist er niðurstaðan yfirleitt sú sama. Við erum ekki eins.

Lilja Björk.
Lilja Björk Þuríðardóttir.

Það getur vel verið að ég sé „karlremba“ eins og lýst var í einni greininni sem ég las, eða er ég að einhverju leiti að misskilja þetta (sem ég vona innilega), en eins og ég sé þetta þá er þetta eingöngu spurning um hvernig maður bregst við aðstæðunum hverju sinni. Þú getur ekki stjórnað því hvernig aðrir koma fram við þig en þú getur stjórnað því hvernig þú tekur því. Í einni greininni var maður að tala um aumingja konuna á dekkjaverkstæðinu sem fékk ekki afgreiðslu því að þar voru karlmenn teknir fram fyrir hana.

Ég veit ekki með ykkur en í þessum aðstæðum hefði ég sjálf verið búin að tilkynna afgreiðslumanninum að ég væri næst, sem ég hef marg oft gert ef ég lendi í þessari stöðu.

Í heiminum sem ég bý í núna sýnist mér konurnar stjórna allflestu, allavega því sem þær vilja stjórna en minn heimur er kannski ekki normið. Veit ekki með það en mér finnst að hann ætti að vera það. Í mínum heimi virkar lífið þannig að burtséð frá því hvort þú er kvenmaður, karlmaður, svartur, hvítur, hverju þú trúir eða trúir ekki þá hefur þú alla möguleika á því að gera nákvæmlega það sem þú vilt ef þú bara ferð í málið og gerir það. Stundum gengur allt upp og stundum ekki burtséð frá því hvort að þú ert karl eða kona.

Við Íslendingar erum mikið forréttindapakk, við höfum allt til alls og það sem mér finnst best við það að vera Íslendingur er það að ég er frjáls til að gera það sem ég vil, búa þar sem ég vil og vinna við það sem ég vil. Ef ég er ekki sátt við laun eða vinnu sem ég er í þá er mér algjörlega frjálst að breyta því ég get bara hætt í einni vinnu og fundið mér nýja. Ég get flutt hvert sem ég vil og gert það sem mér dettur í hug að ég vilji gera þá stundina og svo get ég skipt um skoðun líka.

Í guðanna bænum hættið nú að væla yfir öllu þessu sem ykkur finnst vera svona voðalega mikið að og einbeitið ykkur að því hvað við höfum það hrikalega gott hérna á Íslandi.  Trúið mér það gengur allt svo miklu betur þannig. Ekki svo að segja að ég sé að meina að við eigum að láta vaða yfir okkur að neinu leiti. Þetta er spurning um að vera ákveðinn en sanngjarn.  Við viljum jafnrétti ekki forréttindi eða það er allavega það sem ég vil, og tel mig hafa.

Jólakveðjur

Lilja Björk, Lyngvöllum.