Öllum fyrirvörum aflétt vegna samkomulags Landsnets við PCC Bakki Silicon

0
291

Öllum fyrirvörum vegna samnings Landsnets og PCC Bakki Silicon um flutning raforku til fyrirhugaðs kísilvers á Bakka við Húsavík hefur verið aflétt af hálfu PCC og stjórnar Landsnets. Orkuafhending miðast við nóvembermánuð 2017 og fer undirbúningur framkvæmda nú á fullan skrið hjá Landsneti.

Frá vinstri: Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.
Frá vinstri: Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.

 

Samningurinn við PCC er sá fyrsti sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Öllum fyrirvörum í samningnum, m.a. vegna fjármögnunar og fleiri ákvæða, hefur nú verið aflétt, bæði af hálfu stjórnar Landsnets hf. og stjórnenda PCC Bakki Silicon.

Samkvæmt samningnum skal Landsnet tryggja orkuflutning til kísilvers PCC frá meginflutningskerfinu og þeim framleiðslueiningum sem tryggja kísilverinu raforku. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðjunnar er 52 megavött (MW) og er miðað við að orkuafhending hefjist í nóvember 2017.

150-180 ársverk

Tenging iðnaðarsvæðisins á Bakka við Þeistareykjavirkjun felur í sér lagningu 29 km langrar 220 kílóvolta (kV) háspennulínu, Þeistareykjalínu 1, milli virkjunarinnar og Bakka, byggingu 220 kV tengivirkis á Bakka og lagningu 33 kV tengingar frá tengivirkinu að fyrirhugaðri verksmiðju PCC. Undirbúningur verkefnisins hefst strax hjá Landsneti og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrrihluta næsta árs. Samhliða vinnur Landsnet einnig að tengingu Þeistareykjavirkjunar við meginflutningskerfið með byggingu tengivirkja á Þeistareykjum og við Kröfluvirkjun ásamt lagningu Kröflulínu 4, 33 km langrar 220 kV háspennulínu milli tengivirkjanna. Gert er ráð fyrir að mannaflaþörf verkefnanna sé á bilinu 150-180 ársverk.

Áætlaður kostnaður við tengingu iðnaðarsvæðisins á Bakka við Þeistareykjavirkjun annars vegar og tengingu virkjunarinnar hins vegar við meginflutningskerfi Landsnets er metinn á tæplega fimm milljarða króna. Auk þess er kostnaður vegna tenginga PCC á Bakka sem Landsnet annast áætlaður um það bil einn og hálfur milljarður króna. Fréttatilkynning.