Ófremdarástand á Leirhnjúkssvæðinu – Ferðamenn virða ekki lokunina

0
118

Á dögunum lokuðu landeigendur svæðinu við Leirhnjúk, norðvestur af Kröflu, fyrir ferðamönnum frá og með 17. júní, um óákveðinn tíma af öryggisástæðum. Áberandi skilti um lokun voru sett upp og kaðlar strengdir fyrir gönguleiðir. Gönguleiðir  í kringum Víti eru sömuleiðis stórhættulegar ferðafólki og var svæðinu þar einnig lokað af öryggisástæðum. Að sögn Friðriks Dags Arnarsonar landvarðar í Mývatnssveit virðir ferðafólk lokunina ekki og gengur um svæðið óhikað og setur sig í stórhættu.

Göt í þykkan skafl á gönguleiðinni upp að Leirhnjúki. Ekki mótaði fyrir þessum götum fyrir tæpri viku.
Göt í þykkan skafl á gönguleiðinni upp að Leirhnjúki. Ekki mótaði fyrir þessum götum fyrir tæpri viku.

 

Mikill snjór er ennþá á Leirhnjúkssvæðinu og við Víti og liggur snjórinn yfir göngupalla á sumum stöðum.  Víða eru gönguleiðirnar á kafi snjó og ferðamenn sem hafa verið að fara inn á svæðið, þrátt fyrir lokun, hafa verið að ganga langt út fyrir gönuleiðirnar og sjá má slóðir í snjónum yfir stórhættulegar sprungur og inn á stórhættulegt hverasvæði. Friðrik segir svæðið vera stórhættulegt og hann hefur miklar áhyggjur af ástandinu. Hann segir marga erlenda ferðamenn ekki gera sér grein fyrir því hve hættuleg náttúra Íslands geti verið.

Stórir grjóthnullungar hafa hrunið út á skaflinn sunnan í Leirhnjúki. Skaflinn hefur minnkað ótrúlega mikið. Enn ganga túristar yfir fönnina þar sem miklar gjár eru undir - þrátt fyrir skilti sem segja að svæðið sé lokað
Stórir grjóthnullungar hafa hrunið út á skaflinn sunnan í Leirhnjúki. Skaflinn hefur minnkað ótrúlega mikið. Enn ganga túristar yfir fönnina þar sem miklar gjár eru undir – þrátt fyrir skilti sem segja að svæðið sé lokað.

 

Umhverfisstofnun hefur ekki lögsögu á Leirhnjúkssvæðinu þar sem það er ekki friðlýst og getur því fátt gert til að bæta ástandið. Friðrik sagði í spjalli við 641.is að   hagsmunaaðilar, landeigendur, ríkið, ferðaþjónustuaðilar og sveitarstjórnarfólk verði að setjast niður og ákveða hvað eigi að gera, því þetta geti ekki gengið  svona lengur.

Friðrik kvaðst vonast til að ekki þurfi stórslys til að menn geri eitthvað í málinu.

Við upphaf gönguleiðarinnar niður í Reykjahlíð. Yfir svona fönn og svona sprungur eru menn að ganga nær hnjúknum. Ekki mótaði fyrir mörgum af þessum götum fyrir tæpri viku. Hvað leynist fleira þarna undir sléttu yfirborði?
Við upphaf gönguleiðarinnar niður í Reykjahlíð. Yfir svona fönn og svona sprungur eru menn að ganga nær hnjúknum. Ekki mótaði fyrir mörgum af þessum götum fyrir tæpri viku. Hvað leynist fleira þarna undir sléttu yfirborði?

Meðfylgjandi myndir tók Friðrik Dagur Arnarson. [scroll-popup-html id=”12″]