Oddviti minnihlutans til liðs við meirihlutann

0
145

Árni Pétur Hilmarsson oddviti Framtíðarlistans í Þingeyjarsveit og annar af tveimur sveitarstjórnarfulltrúum listans, hefur þegið boð um að taka þriðja sætið á lista Samstöðulistans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. 641.is náði tali af Árna Pétri nú í kvöld þar sem hann staðfesti þetta og sagði hann að málefnaleg samstaða hefði náðst milli hans og Samstöðulistans. 

Árni Pétur Hilmarsson.
Árni Pétur Hilmarsson.

Samkvæmt heimildum 641.is mun Arnór Benónýsson skipa fyrsta sætið og Margrét Bjarnadóttir annað sætið á Samstöðulistanum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, en Samstöðulistinn fékk fimm fulltrúa af sjö í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Árni Pétur upplýsti samstarfsfólk sitt á Framtíðarlistanum um þessa ákvörðun sína nýlega, en Ásta Svavarsdóttir, sem er hinn fulltrúi Framtíðarlistans í sveitarstjórn, kom af fjöllum þegar 641.is bar þetta undir hana.

 

Vill að Árni víki af listanum.

“Árni Pétur hefur því miður ekki séð ástæðu til þess mjög lengi að ræða við mig svo ég fékk þessar fréttir utan að mér. Þetta kemur mér ekki óvart því eftir að hann fékk aðstoðarskólastjórastöðuna hef ég fundið hvernig samherji minn hefur smátt og smátt horfið úr sveitarstjórninni. Sendingin sem ég fékk svo nýverið tók þar af allan vafa. En þar sem hann hefur nú loksins sagt formlega skilið við Framtíðarlistann og stefnumál hans finnst mér bæði rétt og eðlilegt gagnvart kjósendum okkar að hann víki sæti fram að kosningum”, sagði Ásta Svavarsdóttir í spjalli við 641.is í dag.

“Vinnubrögð Samstöðulistans eru umhugsunarverð. Ég held ég nenni ekki að hafa fleiri orð um það”, sagði Sigurður Hlynur Snæbjörnsson fyrsti varamaður Framtíðarlistans í spjalli við 641.is í kvöld.